Safna undirskriftum gegn breytingum á SBK-reit
Efnt hefur verið til undirskriftasöfnunar gegn breyttu deiliskipulagi við Hafnargötu 12 í Reykjanesbæ. Komið hefur fram tillaga um að fjarlægja byggingar á lóðinni og byggja þar þriggja hæða íbúðablokkir með 77 íbúðum. Fyrirtækið Sérleyfisbifreiðar Keflavíkur, eða SBK, var með starfsemi sína á reitnum á árum áður auk þess sem þar voru bæjarskrifstofur.
Á vef undirskriftasöfnunarinnar segir meðal annars að þeir sem að henni standi telji að tillagan muni umbylta elsta bæjarhluta Keflavíkur og hafa þannig neikvæð áhrif á svipmót og ógna sérstæðum byggingar- og menningararfi bæjarins.
Haldinn var kynningarfundur um áformin í síðustu viku í Bíósal Duus húsa þar sem framkvæmdaraðilar og eigendur reitsins voru til svara. Hluti fundargesta lét þar í ljós óánægju sína með fyrirhugaða uppbyggingu á reitnum. Upp úr sauð þegar arkitekt sem sá um kynningu á verkefninu fyrir hönd eigenda tjáði gestum að honum þætti gamli bærinn í Keflavík ekkert sérstök bæjarprýði. Í kjölfarið rauk um helmingur fundargesta á dyr.
Skoða má tillöguna á vef Reykjanesbæjar. Tillagan verður til sýnis á skrifstofu Reykjanesbæjar ásamt fylgigögnum til 2. febrúar 2017. Íbúum er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna fram til 2. febrúar næstkomandi.