SAF vara við óheftri og einhliða gjaldtöku einkaaðila
Í úrskurði Sýslumannsins á Suðurnesjum, dagsettum 29. júní 2021, kemur fram að eigendur jarðarinnar Hrauns á Reykjanesi telji að Norðurflugi ehf. beri að greiða eðlilegt og sanngjarnt gjald vegna lendinga í tengslum við útsýnisflug yfir eldgosið í Geldingadölum. Norðurflug ehf. hefur leitað samninga við landeigendur án árangurs og en ljóst er að aðila greinir verulega á um hvað sé eðlilegt og sanngjarnt gjald fyrir afnot af landinu sem um ræðir. Í málinu er óumdeilt að engin aðstaða eða þjónusta er til staðar af hálfu landeigenda sem skuli vera andlag umræddrar gjaldtöku. Þá er eðlilegt að spyrja hver ábyrgð landeigenda er varðandi öryggi á svæðinu í tengslum við gjaldtöku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar.
Skýrt fordæmi um upphæðir í gjaldtöku fyrir aðstöðu til lendinga liggur nú þegar fyrir í álagningu lendingargjalda á Reykjavíkurflugvelli, sem Norðurflug og aðrir þjónustuaðilar í sömu sporum greiða nú þegar.
Samtök ferðaþjónustunnar telja augljóst að hvorki geti talist sanngjarnt né eðlilegt að gjald fyrir lendingar á óræktuðu og óbyggðu landi, þar sem engin aðstaða eða þjónusta er til staðar, sé margfalt hærra en gjald fyrir lendingar á uppbyggðum flugvelli með tilheyrandi þjónustu.
Samtökin vara sterklega við því að lög séu túlkuð með þeim hætti að landeigendur geti krafið ferðaþjónustuaðila um háar upphæðir að eigin vali fyrir afnot af óræktuðu og óbyggðu landi sem hvorki valda tjóni né röskun á nytjum eigenda.
SAF leggja áherslu á að öll gjaldtaka einkaaðila gagnvart ferðaþjónustu þurfi að vera grundvölluð á samningum við ferðaþjónustufyrirtæki þar sem skýrt komi fram m.a. hvaða réttindi, aðstaða eða þjónusta sé andlag viðkomandi gjalda og til hve langs tíma réttindi á grundvelli samnings skuli gilda.
SAF hafna alfarið hugmyndum um einhliða gjaldtöku án andlags, segir jafnframt í tilkynningunni.
Stefna SAF gagnvart gjaldtöku í ferðaþjónustu byggir á því að gjaldtaka af ferðaþjónustufyrirtækjum sé því aðeins ásættanleg að fyrir gjaldið komi skilgreind réttindi, aðstaða, þjónusta, innviðir eða uppbygging sem ferðaþjónusta á viðkomandi svæði getur nýtt. Slík nálgun er t.d. grundvöllur þjónustugjalda opinberra aðila og getur verið grundvöllur aukinnar verðmætasköpunar og uppbyggingar í ferðaþjónustu.
SAF árétta að ekki er hægt að ætlast til að ferðaþjónustufyrirtæki láni einkaaðilum fé með gjaldtöku fyrirfram til að byggja upp aðstöðu, enda myndi slíkt jafngilda því að ferðamenn dagsins í dag greiði fyrir aðstöðu eða þjónustu sem þeir geta ekki nýtt. Eðlileg framvinda hvers konar gjaldtöku hlýtur að byggja á því að greitt sé fyrir t.d. aðstöðu eða þjónustu sem þegar er til staðar og ferðamenn og fyrirtæki geta nýtt.
SAF vara sterklega við áformum um gjaldtöku sem hafa birst síðustu vikur í ýmsu formi, m.a. í tengslum við eldgosið í Geldingadölum og umferð um land Hjörleifshöfða, og telja vafa leika á lagastoð gjaldtökuáformanna í báðum tilfellum.
Það er afar mikilvægt að öll gjaldtaka af ferðamönnum skoðist í heildarsamhengi með tilliti til samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar. Einhliða gjaldtaka landeigenda, hvort sem um er að ræða opinbera eða einkaaðila, þar sem engin réttindi eða uppbygging á aðstöðu, innviðum eða þjónustu kemur fyrir gjaldið er aðeins til þess fallin að skerða samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu í alþjóðlegu samhengi.
Samkvæmt mælikvarða World Economic Forum um samkeppnishæfni ferðaþjónustu (TTCI 2019) er íslensk ferðaþjónusta í 132 sæti af 138 löndum heims þegar kemur að samkeppnishæfni í verðlagningu. Ljóst er að nú þegar greiningaraðilar eru sammála um að endurreisn efnahagslífs landsins byggi á hraðri viðspyrnu ferðaþjónustu er enn meiri þörf á því að sérstaklega sé gætt að öllu þáttum sem geta skaðað rekstrarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja og þar með samkeppnishæfni ferðaþjónustulandsins Íslands. Þar stafar ekki síst hætta af hugmyndum um óhefta gjaldtöku á ferðaþjónustufyrirtæki án uppbyggingar innviða eða þjónustu, segir að endingu.