Sænska rannsóknarstofan harmar mistök
- Mannleg mistök urðu til þess að niðurstöður sýndu fimmfalt magn málma í sýnum úr Helguvík
Sænska rannsóknarstofan ALS Global harmar mistök sem gerð voru við greiningu sýna úr mælistöð vegna mengunar frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.
Frávik við niðurstöðu á mælingum á málmum, þar á meðal á arseni, frá kísilverksmiðjunni gáfu til kynna að mistök hefðu verið gerð í ferlinu. Orkurannsóknir ehf. safna sýnum í Helguvík og senda til Svíþjóðar. Í tilkynningu frá Orkurannsóknum segir að farið hafi verið yfir þau gögn sem til staðar voru og verkferla við sýnastöfnun, auk þess sem ALS Global hafi farið yfir sína ferla. Við skoðun hjá ALS kom í ljós að mannleg mistök hefðu leitt til þess að sýnin sem send voru til Svíþjóðar voru greind með fimmfalt hærra magni málma en raunin var.
Hér má lesa tilkynningu ALS
Tilkynning Orkurannsókna er eftirfarandi:
Niðurstaða á orsök mæliskekkju í Helguvík
Líkt og kunnugt er kom upp óeðlilegt frávik í efnamælingum Orkurannsókna ehf í Helguvík sem gáfu vísbendingar um að mæliskekkja hefði átt sér stað við greiningu á málmum í ryksýnum, þar á meðal arsens.
Í kjölfarið fór fyrirtækið yfir þau gögn sem voru til staðar og verkferla við sýnasöfnun, auk þess sem ALS Global (www.alsglobal.se/en) í Svíþjóð, sem annast úrvinnslu og greiningar á þeim sýnum sem Orkurannsóknir safna, fóru yfir sína ferla. Við skoðun hjá ALS hefur komið í ljós að mannleg mistök hjá þeim leiddu til þess að sýnin sem send voru til Svíþjóðar voru greind með fimmfalt hærra magn málma en raun var.
ALS hefur sent frá sér yfirlýsingu (sjá viðhengi) þar sem þeir harma þessi mistök og árétta að þeir muni fara yfir sína verkferla til að fyrirbyggja slík mistök í framtíðinni.
Orkurannsóknir ítreka að fyrirtækið fylgir ítrustu gæðaferlum og viðheldur viðurkenndum vinnubrögðum við umhverfis- og efnamælingar.
Egill Þórir Einarsson
Yfirmaður rannsóknarstofu Orkurannsókna ehf