Sædýrasafn í Sandgerði?
 Jón Gunnarsson þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi sagði í umræðum á Alþingi á þriðjudag um sædýrasafn að slíkt safn ætti vel heima í Sandgerði við hlið Fræðasetursins, en þingsályktunartillaga um stofnun slíks safns var lögð fram á Alþingi á þriðjudag. Með tillögunni er ríkisstjórninni falið að kanna kosti og hagkvæmni þess að byggt verði á höfuðborgarsvæðinu veglegt sædýrasafn.
Jón Gunnarsson þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi sagði í umræðum á Alþingi á þriðjudag um sædýrasafn að slíkt safn ætti vel heima í Sandgerði við hlið Fræðasetursins, en þingsályktunartillaga um stofnun slíks safns var lögð fram á Alþingi á þriðjudag. Með tillögunni er ríkisstjórninni falið að kanna kosti og hagkvæmni þess að byggt verði á höfuðborgarsvæðinu veglegt sædýrasafn. 
Í tillögunni sem Lára Margrét Ragnarsdóttir varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins lagði fram segir að sædýrasafnið yrði í senn lifandi fiskasafn og fróðleiksnáma um lífríki Norður-Atlantshafsins, rannsóknir og vísindi, verndun og nýtingu fiskstofnanna og umgengni við landi. Í máli Láru Margrétar kom fram að það mætti búast við a.m.k. 250 þúsund gestum á ári og að tekjur af aðgangseyri, minjagripum og veitingum gæti numið um 200 – 350 milljónum króna á ári.
Töluverðar umræður urðu um tillöguna og sagði Jón Gunnarsson þingmaður Samfylkingarinnar að hann teldi ekki rétt að lagt yrði til að sædýrasafnið yrði á höfuðborgarsvæðinu, ekki væri rétt að einskorða tillöguna eingöngu við það svæði. 
Jón sagði að hann teldi að ef sædýrasafn yrði reist í Reykjavík myndi það ganga að starfsemi Fræðasetursins í Sandgerði dauðri. „Nær væri að skoða möguleikann á að efla það safn með því að setja upp, í þeirri aðstöðu sem þar er og nýrri aðstöðu sem reist yrði, sædýrasafn á heimsmælikvarða. Ég tel að það væri okkur til sóma að velta fyrir okkur slíkum aðgerðum nú þegar við horfum upp á hvernig kvótinn hefur flust frá Sandgerði og að þar er full þörf á nýjum atvinnutækifærum,“ sagði Jón m.a. við umræðurnar á Alþingi á þriðjudag. Jón sagði einnig við umræðurnar að í ljósi frétta um samdrátt hjá Varnarliðinu væri skynsamlegt að auka fjölbreytni atvinnulífs á Suðurnesjum og gæti sædýrasafn verið liður í þeirri viðleitni. 
Þingsályktunartillögu um stofnun sædýrasafns var vísað til samgöngunefndar Alþingis.


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				