Sæbjúgnaveiðiskip brennur í Sandgerðishöfn
Eldur kom upp í fiskiskipi í Sandgerðishöfn í kvöld. Tilkynnt var um reyk frá Þristi ÍS 360 í höfninni í Sandgerði. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja sendi fjölmennt slökkvilið á staðinn með tvo dælubíla. Útkallið barst Neyðarlínunni rétt fyrir kl. 23:30 í kvöld, laugardagskvöld.
Reykkafarar héldu strax inn í skipið og fundu eld í rafbúnaði í vélarrými. Eldurinn var einangraður á þessum eina stað en reykur var hins vegar kominn um allt skip. Þannig lagði svartan reyk um tíma út um stýrishús skipsins.
Þristur ÍS er gerður út á sæbjúgnaveiðar en heimahöfn skipsins er á Flateyri.