Sá fallegt, autt húsnæði og ákvað að opna verslun
Stefanía María Aradóttir flutti í íbúð á Ásbrú í febrúar síðastliðnum en fyrir bjuggu á svæðinu tvær dætur hennar og sonur eiginmannsins. Stuttu eftir að hún flutti tók hún rúnt niður Hafnargötuna í Keflavík og sá þá autt verslunarhúsnæði við Hafnargötu 35. Stefanía hreifst af húsinu og ákvað að opna þar verslunina SA Iceland Design. „Ég ólst upp í Neskaupstað og stofuglugginn hérna í versluninni minnti mig á æskuheimilið en þar var einmitt svona gluggi. Þetta fór því þannig að ég ákvað að opna hér verslun, eiginlega bara fyrir tilviljun,“ segir Stefanía.
Fyrir rekur hún Saumastofu Íslands í Reykjavík og tekur því á móti fatnaði, fortjöldum og öðru í viðgerð í versluninni við Hafnargötu. Í SA Iceland Design eru á boðstólum flíkur sem Stefanína hannaði og eru saumaðar hjá Saumastofu Íslands, bróderuð handklæði, rúmföt og ýmsar vörur sem höfða til ferðamanna. Í versluninni er tekið á móti almennum viðgerðum á fatnaði frá Cintamani.
Búið er að opna verslunina og segir Stefanía marga viðskiptavini hafa litið við, bæði ferðamenn og heimafólk. Formleg opnun er núna um mánaðamótin og verða ýmis opnunartilboð. Nánari upplýsingar má nálgast á Facebook-síðunni SA Iceland.