Rýmingaráætlun fyrir Voga tilbúin í næstu viku
Nú er unnið að lokafrágangi rýmingaráætlunar fyrir Sveitarfélagið Voga, sem þegar liggur fyrir í drögum. Lengi hefur verið fjallað um mikilvægi þess að gera slíka áætlun, en eftir að hrina jarðhræringa hófst í grennd við Þorbjörn og Grindavík í upphafi árs 2020 var ítrekað mikilvægi þess að ráðast í gerð áætlunarinnar. Þar sem náttúruváin steðjaði þá að Grindavík og nágrenni var eðlilegt að lokið yrði fyrst við rýmingaráætlun þar. Þetta kemur fram í pistli sem Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Vogum, sendi frá sér í morgun.
„Af ýmsum ástæðum hefur vinna við gerð rýmingaráætlunar fyrir önnur sveitarfélög á Suðurnesjum tafist, en nú er loks kominn góður skriður á þau mál. Fulltrúi okkar sveitarfélags hefur þegar fundað með lögreglunni, sem heldur utan um gerð viðbragðsáætlunarinnar. Verið er að leggja lokahönd á innri áætlanir stofnana sveitarfélagsins, sem og gerð sjálfs rýmingarkortsins,“ segir Ásgeir.
Reiknað er með að áætlunin í heild sinni verði tilbúin í næstu viku. Um leið og hún verður tilbúin verður birt frétt á heimasíðu sveitarfélagsins og áætlunin kynnt rækilega.