Rúta og jeppi í djúpri holu í Svartsengi hluti af leikmynd
Rúta liggur á hliðinni í djúpri holu við Grindavíkurveg í Svartsengi. Jeppi er einnig stórskemmdur í sömu holu. Víkurfréttir hafa ekki upplýsingar um hvað átti sér stað. Holan virðist ekki vera jarðfall, heldur grafin með gröfu.
Vegfarandi um svæðið vakti athygli á bílunum í dag. Þetta er á þeim kafla Grindavíkurvegar sem er rétt innan við varnargarðana við Svartsengi.
Lögregla hefur greinilega verið á vettvangi þar sem bæði ökutækin eru merk með gulum lögregluborða.
Umrætt svæði er merkt lokað allri umferð en á meðan ljósmyndari Víkurfrétta hafði stutt stopp þar í dag til að taka myndir var mikil umferð um svæðið. Aðgangur að holunni er þannig að auðvelt er að aka að henni.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á staðnum nú síðdegis.
Uppfært: Heimildir benda til að vettvangurinn sé sviðsmynd fyrir kvikmynd eða sjónvarpsþætti.