Rússneskur skipsköttur stakk af í land í Sandgerði
Sætasta kisa Danmerkur, læðan Nuk, er ekki fyrsti erlendi kötturinn sem laumar sér í land á Íslandi. Rússneskur verksmiðjutogari, Aleksey Gmyryov, hafði viðkomu í Sandgerði í ágústmánuði árið 1992.
Ljósmyndari Víkurfrétta, Hilmar Bragi Bárðarson, var við Sandgerðishöfn þegar skipið lagðist að bryggju og varð vitni að því þegar skipskötturinn á Aleksey Gmyryov stakk af í land.
Fljótlega eftir að skipið kom að bryggju kom í ljós að viðskipti með ólöglegan varning blómstruðu og innan skamms var Sandgerðishöfn orðin full af lögreglu- og tollgæslumönnum sem höfðu ýmislegt við skipið og áhöfnina að athuga.
Lögreglumenn náðu að fanga skipsköttinn og var honum komið um borð í skipið að nýju þar sem hann hafði næg verkefni að að eltast við rottur og kakkalakka því samkvæmt lýsingum í Víkurfréttum frá þessum tíma var skipið fullt af slíkum kvikindum og ýmsum öðrum pöddum sem lögreglumenn kunnu ekki nöfnin á.
Auk þess að fanga skipsköttinn áður en hann gerði usla í Sandgerði, þá gerðu lögreglu- og tollgæslumenn upptækt áfengi og tóbak í miklu magni, en vínið og retturnar voru notaðar sem gjaldmiðill í viðskiptum með gamlar Lödur og varahluti ýmiskonar.