Rússnesk flugvél brotlenti í Keflavík
Óhapp varð á Keflavíkurflugvelli í morgun þegar hjól á rússneskri flugvél fóru ekki niður við lendingu í æfingaflugi og hún þurfti að magalenda. Fimm manns voru um borð og sluppu allir við meiðsl utan eins sem meiddist minni háttar og er talinn ökklabrotinn.
Flugvélin sem er af gerðinni Sukhoi SuperJet-100, brotlenti eftir að hafa verið í æfingaflugi í nótt og í morgun. Hún þurfti að magalenda þar sem hjól vélarinnar fóru ekki niður og tókst lendingin vel miðað við aðstæður en flugvélin rann til á brautinni. Áhöfnin er öll rússnesk.
Allt tiltækt lið lögreglu og slökkviliðs var kallað út vegna óhappsins. Vélin er nokkuð skemmd og er annar hreyfillinn brotinn. Unnið er að því að fjarlægja vélina af vellinum en það verður gert eftir vettvangsskoðun.
Flugbrautin sem vélin lenti á er með númerið 29 er lokuð en aðrar brautir vallarins opnar. Ekki er gert ráð fyrir að flug um Keflavíkurflugvöll raskist vegna óhappsins.
Rannsóknarnefnd Samgöngumála og lögreglan á Suðurnesjum vinnur að rannsókn málsins en á þessari stundu er ekki vitað hvað olli slysinu. Umrædd flugvél hefur verið sl. mánuð við tilrauna- og æfingaflug á Keflavíkurflugvelli á vegum framleiðanda vélarinnar.
Flugvélin við æfingar í Keflavík.