Rússinn Orlik er farinn — í bili
Dreginn til Hafnarfjarðar en kemur aftur á leið sinni erlendis í brotajárn.
Rússneski togarinn Orlik er farinn úr höfninni í Njarðvík - í bili. Togarinn var dreginn úr höfn í morgun og er nú kominn til Hafnarfjarðar. Þar verður botn skipsins þéttur áður en það verður dregið erlendis í brotajárn. Orlik mun hins vegar koma aftur til Njarðvíkur á leið sinn í brotajárn og hafa hér viðkomu í um hálfan mánuð, segir Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar.
Frá því snemma árs 2014 hefur rússneskur togari, Orlik, legið við landfestar í höfninni í Njarðvík. Togarinn hefur verið stærsta skipið í höfninni og gnæftyfir önnur skip. Síðustu ár hefur það verið hlutskipti Njarðvíkurhafnar að vera skipakirkjugarður þar sem gömul fiskiskip hafa borið beinin. Nokkur hafa einnig sokkið við bryggju en verið bjargað upp aftur með tilheyrandi kostnaði.
Hinn rússneski Orlik er í eigu Hringrásar en fyrirtækið ætlaði að rífa skipið í brotajárn líkt og það gerði með gamla varðskipið Þór og flutningaskipið Fernanda sem varð eldi að bráð. Hins vegar kom babb í bátinn þar sem skipið inniheldur bæði spilliefni og asbest og því fékkst ekki leyfi til þess að fleyta skipinu upp í fjöru í Helguvík og rífa það þar.
Myndin var tekin í morgun þegar skipið var dregið úr höfninni. Með Orlik á myndinni er dráttarbáturinn Togari og hafnsögubáturinn Auðun. VF-mynd: Hilmar Bragi