Rusli kastað í starfsmenn Háskólavalla á Ásbrú
Að undanförnu hefur það gerst að vinnuhópur Háskólalavalla sem sér um trjáklippingar á Ásbrú hefur lent í aðkasti að hálfu íbúa á svæðinu. Rusli hefur verið kastað að unglingunum sem eru á milli 18 og 19 ára og að þeim hefur verið hreytt ókvæðisorðum og þeim sýnd mikil vanvirðing.
Í júní fór í gang hreinsun og fegrun á Ásbrú á vegum Háskólalavalla sem eiga íbúðirnar á svæðinu og Vinnuskóla Reykjanesbæjar og síðan það átak hófst hefur áreitið stigmagnast, sérstaklega eftir að Vinnuskólinn kom á svæðið að að sögn Kristínar Sóleyjar Kristinsdóttur flokkstjóra hjá Háskólavöllum.
Birgir Bragason umsjónarmaður með fasteignum á Ásbrú sagði í samtali við Víkurfréttir að svo virðist sem að vinnuhópurinn sé eins konar skotmark vegna óánægju með Vinnuskóla Reykjanesbæjar. Birgir sendi fjöldapóst á íbúa Ásbrúar og hefur fengið mikil viðbrögð frá íbúum sem eru hissa á framferði þeirra sem eiga í hlut. „Við vitum svo sem ekki hverjir þetta eru en þessir aðilar hafa kastað rusli að starfsmönnunum og sagt þeim að tína það upp. Jafnvel hefur verið tæmt úr öskubökkum fyrir framan starfsmennina.“
Kristín Sóley Kristinsdóttir flokkstjóri vinnuhóps Háskólavalla sagði meðal annars að hún gangi varla milli beða án þess að verða fyrir einhvers konar aðkasti. Hún segir einn aðila hafa kastað í sig rusli og tæmt úr öskubakka nánast yfir hana. Hún segir að þetta fólk virðist halda að hún sé flokkstjóri hjá Vinnuskólanum og það sé greinilega alls ekki sátt við unglingana sem þar starfa. „Ég hef sagt þessu fólki að við séum ekki á þeirra vegum og samt er kallað og hrópað að manni og maður er nánast orðinn smeykur þegar bílar hægja á sér og bíður eftir að ruslið kastist í mann,“ segir Kristín Sóley.
„Þetta er bara virkilega leiðinlegt og hreint ótrúlegt að fullorðið folk hegði sér svona, ég hef bara aldrei lent í öðru eins,“ sagði Kristín að lokum.
[email protected]