Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Rusli hent á urðunarstað fyrir lífrænan úrgang
Föstudagur 26. nóvember 2004 kl. 13:26

Rusli hent á urðunarstað fyrir lífrænan úrgang

Fimm fiskikörum fullum af allskyns rusli var hent á urðunarstað fyrir lífrænan úrgang við Fitjabakka í Njarðvík á dögunum. Urðunarstaðurinn er einungis fyrir jarðveg og hefur verið töluvert notaður fyrir mold. Á skilti við urðunarstaðinn er skýrt tekið fram að ekki megi henda öðru en lífrænum úrgangi á svæðið. Að sögn Hólmars Magnússonar starfsmanns í þjónustudeild Reykjanesbæjar er þetta litið alvarlegum augum.
„Málið snýst um það að okkar mati að sum fyrirtæki eru að reyna að komast hjá því að greiða fyrir úrgang til Kölku með því að henda ruslinu á þetta svæði,“ segir Hólmar. Aðspurður segir hann það ekki hafa oft komið fyrir að rusli hafi verið hent á svæðið. „Það kemur einstaka sinnum fyrir. Um daginn gómuðum við einn og skikkuðum hann til að taka ruslið aftur.“
Hólmar segir að reynt hafi verið að finna sökudólginn með því að skoða ruslið, en engin ummerki hafi fundist um hver hafi verið að verki. „Þetta svæði er eingöngu fyrir jarðveg, en ekkert sorp. Við þurfum að hreinsa svæðið og koma ruslinu til Kölku,“ sagði Hólmar í samtali við Víkurfréttir.

Mynd: Fimm fiskikörum fullum af rusli hefur verið hent á svæðinu. Greinargóðar merkingar eru um að ekki megi henda öðru en lífrænum úrgangi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024