Rúmlega 11.000 jarðskjálftar í hrinu við Keili
Jarðskjálftahrina hófst SSV af Keili þann 27. september sl. og hafa rúmlega 11.000 skjálftar mælst á svæðinu, þar af 19 skjálftar 3,0 eða stærri að stærð. Stærsti skjálftinn mældist 4,2 þann 2. okt.
Undanfarna daga hefur verið nokkuð stöðug smáskjálftavirkni á svæðinu og hafa mælst á bilinu 100 til 200 skjálftar þar á sólarhring, langflestir þeirra undir 1,0 að stærð.
Síðast mældist skjálfti yfir 3,0 stærð þann 13. okt. Það hefur því dregið nokkuð úr virkni þar miðað við í upphafi hrinunnar en þá mældust yfir 1.000 skjálftar á sólarhring á svæðinu.
Ekki er þó útilokað að virkni taki sig aftur upp að nýju á svæðinu, segir á vef Veðurstofunnar.