Rúmlega 100 gestir á Sjómannastofunni Vör í hádeginu
Vilhjálmur Lárusson, kokkur á Sjómannastofunni Vör, opnaði staðinn aftur í vikunni og var föstudagshádegið óvenju gott því þegar allt var með felldu í Grindavík, var föstudagurinn venjulega nokkuð rólegur.
Villi eins og hann er jafnan kallaður, var ánægður að geta hafið rekstur á ný. „Það er frábært að sjá líf í bænum aftur, það var ekki nokkur spurning hjá mér að opna aftur því allir þeir fjölmörgu aðilar sem eru að vinna í bænum þurfa að fá sinn mat. Venjulega eru föstudagarnir rólegir hjá mér, margir af matargestum búa utan Grindavíkur og eru oft farnir fyrr heim á föstudögum. Því var gaman að sjá hve margir komu í dag, ég var með kalkúnabringur í aðalrétt en svo elda ég fyrir starfsfólk Jarðboranna, þeir eru að vinna við Gunnuhver og ég skutla matnum til þeirra þegar ég yfirgef Grindavík kl. 17 í dag,“ sagði Villi.