Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Rúmfatalagerinn vill byggja á go-kart lóð
Mánudagur 27. júní 2005 kl. 16:36

Rúmfatalagerinn vill byggja á go-kart lóð

Smáratorg ehf. hyggst reisa verslunarmiðstöð við hlið Reykjanesbrautarinnar á lóð Reisbíla ehf. en eigandi þeirra síðarnefndu, Stefán Guðmundsson, segist ekki ætla að láta lóðina frá sér en hún var boðin upp síðasta miðvikudag.

Smáratorg ehf., sem er eigandi Rúmfatalagersins, hyggst byggja stóra verslunarmiðstöð á lóðinni en Stefán hyggst jafna boð Smáratorgs ehf. og segir sterka aðila á bak við sig í þeim efnum. Lóðin hefur verið til sölu frá árinu 2003 og telur Stefán þá hjá Smáratorgi hafa beðið með að bjóða í lóðina þar til á uppboðinu svo gott verð fengist fyrir hana.

Agnes Geirsdóttir, framkvæmdastjóri Smáratorgs ehf., sagði í samtali við Víkurfréttir að undirbúningsvinna væri í fullum gangi og að lóðin væri góður kostur þar sem allir flutningar með gáma og annað slíkt sé auðveldur á þessu svæði. „Við vonumst til þess að þessi staðsetning laði að fólk frá Grindavík og öðrum nærliggjandi svæðum,“ sagði Agnes.

Stefán Guðmundsson, núverandi eigandi lóðarinnar, sagði í samtali við Víkurfréttir hafa dagana til 13. júlí til þess að útvega sér fjármagn til að jafna tilboð Rúmfatalagersins. „Ég hef nú þegar aflað mér fjármagn til þess að jafna þeirra boð svo þeir verða að bjóða betur, ég vann þessa lotu en það kemur í ljós hvernig þetta fer í þeirri næstu,“ sagði Stefán. „Ef þeir hefðu komið til mín fyrr þá hefðu þeir fengið lóðina á góðu verði.“
Miðað við þær deilur sem nú hafa risið um þessa lóð er fullsnemmt að segja til um það hvort Suðurnesjamenn eigi eftir að versla í Rúmfatalagernum í heimabyggð.

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024