Rúmar sjö milljónir í styrk til góðra málefna
Hinn árlegi styrkur Hrossaræktar ehf til góðgerðarmála var afhentur formlega á landsmóti hestamanna á Hólum sl. laugardag. Söfnunin hófst að venju á Stóðhestaveislunni í apríl sl. þar sem miðasala í árlegu stóðhestahappdrætti fór af stað. Þar barst að auki góður liðsstyrkur frá velgjörðarsjóðnum Aurora sem lagði til rausnarlegt framlag í minningu Einars Öders Magnússonar hestamanns. Aurora sjóðurinn hét því einnig að tvöfalda hvert framlag sem bærist í gegnum miðasöluna og þegar miðasala og styrktarframlag Aurora var gert upp reyndist styrkurinn vera upp á kr. 7.032.000.-
Viðtakendur styrksins að þessu sinni voru Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna og Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og skiptist upphæðin jafnt á milli félaganna. Hulda G. Geirsdóttir fjölmiðlafulltrúi Hrossaræktar sagði við afhendinguna að vel væri við hæfi að afhenda styrk í minningu Einars Öders á landsmóti, enda minning hans tengd landsmóti og hestamennskunni órjúfanlegum böndum. Þá sögðu móttakendur styrksins stuðninginn ómetanlegan og þökkuðu hestamönnum innilega fyrir. Þær mæðgur Svanhvít Kristjánsdóttir og Dagmar Öder Einarsdóttir afhentu svo fulltrúum Krafts og Neistans styrkinn formlega.
Hrossarækt ehf vill þakka stóðhestseigendum sem gáfu tolla í happdrættið, listakonunni Helmu sem gaf málverk, hestamönnum sem keyptu miða og síðast en ekki síst Aurora velgjörðarsjóði fyrir að koma svo veglega að verkefninu.