Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Rótarýklúbbur Keflavíkur sæmir forseta Íslands „Paul Harris orðu“
Föstudagur 2. júní 2017 kl. 06:00

Rótarýklúbbur Keflavíkur sæmir forseta Íslands „Paul Harris orðu“

Rótarýklúbbur Keflavíkur sæmdi á dögunum Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands „Paul Harris orðu“. Paul Harris viðurkenningunni var komið á hjá Rótarýsjóðnum árið 1957 og það voru aðeins fimm aðilar sem gerðir voru að Paul Harris félögum fyrsta árið.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hjá Rótarýklúbbi Keflavíkur var fyrsta Paul Harris viðurkenningin veitt Jóhanni Péturssyni árið 1980. Frá þeim tíma hefur klúbburinn veitt þessa viðurkenningu til félaga og svo nokkurra annarra sem voru í tengslum við klúbbinn og voru metnir heiðursins verðir. Í tilefni 70 ára afmælis Rótarýklúbbs Keflavíkur 2. nóvember 2015 var tekin ákvörðun um að gera alla klúbbfélagana að Paul Harris félögum og Rótarýklúbbur Keflavíkur er eini Rótarýklúbburinn á Íslandi sem hefur náð því marki.

 

Það var félögum í Rótarýklúbbi Keflavíkur mikill heiður að fá að gera forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, að Paul Harris félaga og fimm félaganna mættu inn á Bessastaði 24. maí og gengu frá málum. Það voru Valgerður Guðmundsdóttir, forseti Rótarýklúbbs Keflavíkur, ásamt Ómar Steinþórssyni, Ólafi Helga Kjartanssyni, Agnari Guðmundssyni og Hannesi Friðrikssyni.

 

Rótarýklúbbur Keflavíkur hefur af þessu tilefni lagt fram dágóða fjárhæð til útrýmingar lömunarveiki í heiminum en alþjóðahreyfing Rótarý stendur að því verkefni ásamt fjölda annarra merkra félaga, stofnana, fyrirtækja og einstaklinga. Þeim hefur orðið vel ágengt og búið er að bólusetja 99,3% allra barna í heiminum og lömunarveikivírusinn finnst nú aðeins í þremur löndum, Afganistan, Pakistan og Nígeríu, en þar hefur ekki tekist að fá alla ráðamenn til samstarfs og því ekki tekist að útrýma þessum vágesti fyrir fullt og allt. En það er unnið markvisst að því og að lokum mun það vonandi takast.