Rótarskot hjá öllum björgunarsveitum
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra keypti fyrsta Rótarskot björgunarsveitanna en um er að ræða nýja leið til þess að styrkja öflugt og mikilvægt sjálfboðaliðastarf björgunarsveitanna um land allt.
Rótarskot er græðlingur sem gróðursettur verður á berangri við Þorlákshöfn. Þar mun með tímanum vaxa upp myndarlegur skógur sem þegar hefur hlotið nafnið Áramót.
Rótarskotin fást á öllum sölustöðum björgunarsveitanna. Kaupendur þeirra fá minjagrip sem staðfestir kaupin en græðlingurinn verður í umsjón Skóræktarfélags Íslands sem sér um gróðursetninguna og uppbyggingu skógarins.
Katrín Jakobsdóttir sagði við þetta tækifæri að Rótarskotin væru fyrirmyndarframtak hjá björgunarsveitunum til að veita landsmönnum nýja leið til að styrkja hið gríðarlega mikilvæga starf sem þær inna af hendi.