Fréttir

Rósa Kristín sigraði í Stóru upplestrarkeppninni
Oddur, Rósa Kristín og Eydís Sól stóðu sig best.
Sunnudagur 24. mars 2024 kl. 06:02

Rósa Kristín sigraði í Stóru upplestrarkeppninni

Rósa Kristín Jónsdóttir í Njarðvíkurskóla sigraði í Stóru upplestrarkeppninni í Reykjanesbæ sem fór nú fram í tuttugasta og sjöunda sinn. Nemendur úr 7. bekk grunnskólanna taka þátt í keppninni ár hvert. Áður höfðu skólarnir haldið forkeppni og valið tvo fulltrúa hver. Fjórtán keppendur tóku því þátt að þessu sinni, tveir frá hverjum skóla.

Í öðru sæti var Oddur Óðinn Birgisson og í þriðja sæti varð Eydís Sól Friðriksdóttir, bæði úr Holtaskóla.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Allir keppendurnir fengu bók og rós í viðurkenningarskyni en fyrstu þrjú sætin fengu einnig peningaverðlaun í boði Íslandsbanka.

Dómnefndin var ekki öfundsverð af hlutskipti sínu að velja í verðlaunasæti enda sagði Guðbjörg Sveinsdóttir formaður að allir væru í raun og veru sigurvegarar þar sem hver og einn keppandi hefði sigrað í sínum skóla.

Ómissandi þáttur þessarar hátíðlegu stundar er tónlistarflutningur nemenda Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en flutt voru þrjú tónlistaratriði. Í upphafi léku þeir Alex Helgason, Arnar Logi Róbertsson, Björgvin Orri Bragason, Einar Ernir Kristinsson, Kacper Nowak, Kolbeinn Magnússon Smith, Lúkas Jóhannesson, Róbert Örn Bjarnason, Sumarliði Brynjarsson og Vilhjálmur Ottó Lúðvíksson á gítar The Mupped Show theme eftir Jim Henson og Sam Pottleg. Eftir hlé lék Emelía Rós Ólafsdóttir á píanó Spring Storm eftir Melody Bober. Þegar dómnefnd vék úr salnum fengu gestir að njóta píanóleiks en það voru þeir Kristófer Emil Róbertsson og Kolbeinn Magnús Smith fjórhent á píanó lögin Bubblegum eftir Alfred og Kvöldsigling eftir Gísla Helgason.

Hafdís Inga Sveinsdóttir, sigurvegari í Stóru upplestrarkeppninni frá fyrra ári, kynnti skáld hátíðarinnar, Björk Jakobsdóttur. Jón Ingi Garðarsson einnig sigurvegari frá því í fyrra, kynnti ljóðskáld hátíðarinnar, Braga Valdimar Skúlason.  Þá las Zain Abo Assaf nemandi í Háaleitisskóla ljóð á móðurmáli sínu, arabísku. Að lokum flutti Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs ávarp og afhenti bókagjafir.