Rokkveislan mikla ekki blásin af
Nú er ljóst að rokkveislan mikla verður ekki á Ljósanótt. Sóttvarnareglur sem kynntar voru í vikunni og gilda frá og með 14. ágúst og til 15. september gera áfram ráð fyrir hámarki 100 manns á samkomum og tveggja metra reglan er í fullu gildi. Það kemur í veg fyrir að hægt er að halda Með blik í auga í Stapanum á Ljósanótt.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Guðbrandur Einarsson að aðstandendur Með blik í auga væru ekki búnir að gefa upp vonina og tónlistarfólkið myndi sæta lagi um leið og opnaðist gluggi fyrir fleiri en 100 manns, sem samkomubannið segir til um núna. Rokkveislan mikla verður því mögulega í haust þegar fleiri mega koma saman og hefur því ekki verið blásin af.
Eftir að tilkynnt var um óbreyttar fjöldatakmarkanir í vikunni skrifaði Guðbrandur færslu á fésbókina sem var svohjóðandi:
„Þessi niðurstaða gerir það að verkum að fyrirhugaðir tónleikar haustsins verða ekki. Helgi Björnsson er búinn að selja upp ferna tónleika í lok ágúst, Björk í Hörpunni, Ljósanótt farin og Blikið verður ekki um næstu mánaðarmót. Mikil vonbrigði, því ég hafði gert mér vonir um eftir að hafa hlustað á forsætisráðherra tala, að tekið yrði meira tillit til menningar- og listviðburða,“ segir Guðbrandur Einarsson, einn aðstandenda Rokkveislunnar miklu.