Rokkveislan mikla bíður eftir þríeykinu
Aðstandendur Með blik í auga bíða nú eftir nýjustu tíðindum frá þríeykinu en sóttvarnayfirvöld munu ráða því hvernig tónleikahaldi verður háttað á næstu vikum.
Rokkveislan mikla var ráðgerð um Ljósanæturhelgina í Reykjanesbæ. Miðað við reglur um samkomur sem gilda í dag þá er ekki hægt að halda tónleikana á Ljósanótt í Reykjanesbæ.
Guðbrandur Einarsson, einn af forsvarsmönnum Með blik í auga, sagði í samtali við Víkurfréttir að beðið sé upplýsinga frá sóttvarnayfirvöldum en núgildandi reglur gilda til 13. ágúst.
„Það hafa nokkur hundruð miðar þegar verið seldir á viðburðinn. Það er óvissa í loftinu en það er alveg inni í myndinni hjá okkur að fresta viðburðinum lengra inn í haustið eða veturinn. Með blik í auga er ekkert bundið við það að vera á Ljósanótt. Við sjáum hvað þríeykið leggur til í vikunni og tökum ákvörðun í framhaldinu,“ sagði Guðbrandur í samtali við Víkurfréttir.