Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Róðurinn kemur út í mínus
Miðvikudagur 11. febrúar 2009 kl. 11:06

Róðurinn kemur út í mínus



„Verðið á þorskinum hefur hrapað niður undir undir 200 krónur nú í byrjun febrúar. Á meðan er leiguverðið á kvótanum 190 krónur.  Róðurinn kemur því einfaldlega út í mínus og því ákváðum við að stoppa á mánudaginn. Við erum ekki tilbúin að róa á þessu leiguverði þegar verðið á markaðnum er svona lágt. Þessu er einfaldlega sjálfhætt undir þessum kringumstæðum og við höfum heyrt í mörgum trillukörlum sem eru við það að gefast upp út af leiguverðinu,“ segir Torfi Þór Torfason sem gerir út smábátinn Didda GK.

Eins og fram hefur komið í fréttum hafa sjómenn sumir hverjir bundið báta sína við bryggju að þessum sökum. Torfi segir að fyrstu vikuna í febrúar hafi meðalverð á þorski hjá honum farið niður í 201 krónu samanborið við 282 krónur á sama tíma fyrir ári.
 
„Þetta er afleit staða núna þegar tíðin hefur í margar vikur verið með besta móti og mokfiskerí, eins og oft vill verða á þessum árstíma,“ segir Torfi ennfremur. Undir þetta tekur Halldór Ármannsson, formaður félags smábátaeigenda á Reykjanesi. Hann segir að í ofanálag hafi sumir farið út í kaup á kvóta með lánum sem fari síhækkandi á meðan fiskverð fari lækkandi. Það gangi einfaldlega ekki upp.

Torfi segist illa skilja þann málflutning útvegsmanna í fjölmiðlum að allt sé með besta móti og menn að stæri sig af stærsta janúarmánuði frá upphafi á fiskmarkaði. „Á meðan horfir maður upp á algert hrun í fiskverði.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samkvæmt því sem fram kemur á vef Landssambands smábátaeigenda var meðalverð á óslægðum þorski 185 krónur vikuna tímabilið 21. janúar til 3. febrúar. Meðalverð á slægðum þorski var 225 krónur, samkvæmt því sem þar kemur fram.

Samkvæmt upplýsingum frá Fiskmarkaði Suðurnesja var meðalverð á slægðum þorski 259 krónur síðustu vikuna í janúar á Suðurnesjum. Á óslægðum þorski var meðalverð 237 krónur.


Tengdar fréttir:

FMS segir meðalverð ekki hafa farið niður fyrir 200 krónur

Borgar sig ekki að fara út á sjó

---

VFmynd/elg – Torfi Þór Torfason á Didda GK. Myndin er tekin fyrir ári síðan á þessum árstíma, en þá eins og nú, voru aflabrögð mjög góð. Torfa finnst hins vegar eftirtekjan heldur rýr þegar leigurverð á kvóta skagar hátt upp í það verð sem fæst fyrir aflann á markaði.