Rockville - minningin ein!
Eitt helsta kennileitið á Miðnesheiði er að hverfa. Það er verið að rífa Rockville - gamla ratsjárstöð Varnarliðsins suður með sjó. Tvær gríðarstórar hvítar kúlur hafa verð aðalsmerki Rockville í hálfa öld. Önnur kúlan er fallin og hin verður farin innan nokkurra daga.
Það var í október 1953 sem ratsjársveit bandaríska flughersins kom sér fyrir í nýbyggðri ratsjársstöðinni. Rockville var með sitt eigið orkuver og var stöðin þess vegna sjálfbær hvað varðar rafmagn. Á svæðinu voru u.þ.b. 20 hermannaskálar, matsalur, pósthús, íþróttasalur, bar, verslanir, bíósalur og kapella. Starfsmenn Rockville voru um það bil tvö hundruð talsins. Stór hluti þeirra bjó á vistinni í Rockville en fjölskyldufólkið bjó á Keflavíkurflugvelli.
Rockville gegndi mikilvægu hlutverki í kalda stríðinu en þá fylgdust liðsmenn ratsjársveitarinnar reglulega með ferðum sovéskra herflugvéla hér við land og beindu orrustuflugvélum varnarliðsins í veg fyrir þær til eftirlits.
Ný ratsjárstöð var tekin í notkun á Miðnesheiði í nóvember árið 1992 en í kjölfarið minnkaði starfsemin í Rockville og færðist hún hægt og rólega upp á Keflavíkurflugvöll þar sem þeirra biðu ný húsakynni.
Fljótlega eftir að herinn hafði yfirgefið Rockville voru nokkrir sem sýndu svæðinu áhuga en þar á meðal voru forsvarsmenn meðferðarstöðvarinnar Byrgisins. Þeir fluttu á svæðið árið 1999 en urðu frá að hverfa 2003. Síðan þá hefur stöðin grotnað niður - þar til nú að hún er að verða minningin ein.
Video: Rockville rifið. (.wmv)
Ljósmyndir: Varnarliðið