Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Róbert Marshall heimsótti VF: Héraðsfréttablöðin lím samfélagsins
Þriðjudagur 3. mars 2009 kl. 11:43

Róbert Marshall heimsótti VF: Héraðsfréttablöðin lím samfélagsins

Róbert Marshall, aðstoðarmaður samgönguráðherra, heimsótti höfuðstöðvar Víkurfrétta í morgunsárið. Rann blóðið til skyldunnar eins og sagt er, enda fyrrum formaður Blaðamannafélags Íslands og samstarfsmaður til margra ára á fréttastofu Stöðvar 2. Róbert er í tveggja vikna fríi frá ráðuneytinu til að fara um Suðurkjördæmi þar sem hann býður sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar.

Aðstoðarmaður ráðherra hefur mikil völd. Suðurnesjamenn eiga ekki ráðherra, en þeir eiga hlut í einum aðstoðarmanni ráðherra sem situr í Samgönguráðuneytinu. Sá heitir Róbert Marshall. Á ferðalögum hans um Suðurnes hefur frændgarður hans stækkað.

„Ég komst að því í síðustu kosningum að ég á meira af ættingjum í Reykjanesbæ en ég hafði áður áttað mig á því langafi minn og langamma, Guðríður Vigfúsdóttir og Guðmundur Guðmundsson, fluttust til Keflavíkur á þriðja áratugnum með ellefu börn með sér frá Eyrarbakka. Þau byggðu sér hús við Hafnargötu sem nú hefur verið rifið en það var númer 50. Það hefur verið töluvert um að fólk meldi sig sem frændfólk mitt hér í Reykjanesbæ. Það er gaman að því,“ sagði Róbert í heimsókn sinni til Víkurfrétta í morgun.

Samgöngumál hafa alltaf skipt Suðurnesjamenn miklu máli. Róbert segir mörg verkefni framundan á samgöngusviðinu.

„Að klára Suðurstrandarveg; það hefur verið sett á dagskrá að bjóða út síðari hluta vegarins nú í ár enda er þetta mannaflsfrek framkvæmd á suðvesturhorni landsins. Hún hefur jafnframt þann kost í för með sér að hún er á það miklu láglendi að þarna er hægt að vinna allan ársins hring. Þetta verkefni myndi því taka vetur-sumar og svo aftur vetur. Það er mjög gott í því atvinnuástandi sem nú ríkir.

Við viljum halda áfram með uppbyggingu Keflavíkurflugvallar ohf. en nú er búið að sameina rekstur flugmálastjórnar á keflavíkurflugvelli og Leifstöðvar í eitt fyrirtæki. Hafnarmálin eru líka mikilvæg á Suðurnesjum. Þetta eru allt verkefni á sviði samgöngumála sem eru framundan,“ segir Róbert.

Fyrir rúmum tveimur árum ákvað Róbert að hella sér út í pólitíkina. Náði þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Hann hefur enn áhuga á blaðamennsku, enda starfaði hann við þá grein í um 10 ár.

„Á sínum tíma voru útgáfustyrkir til handa flokksblöðunum en ég komst á þá skoðun þegar ég var formaður Blaðamannafélagsins að það væri nær að styrkja sérstaklega útgáfu héraðsfréttablaða. Það er sannkallað byggðamál í mínum huga því oft á tíðum eru fréttablöðin mikið í lím í samfélaginu og hringamiðja þess sem er í gangi.

Því er oft haldið fram að þetta séu blöð sem gangi hagsmuna ráðandi afla en staðreyndin er sú að í smáum samfélögum er ekki hægt að hanna neina atburðarrás eða halda hlutum frá fólki. Það vita alltaf allir allt um alla. Það vitum við sem komum utan að landi.

Mér eru mjög hugleikinn baráttan fyrir jafnrétti byggðanna; að hin dreifðu samfélög landsbyggðarinnar sitji við sama borð og höfuðborgin eins og þegar kemur t.d. að hinum og þessum verkefnum. Ég nefni t.d. bara prentun kynningarefnis fyrir ráðuneytin. Það er ekkert því til fyrirstöðu að slík verk séu flutt út á land og í raun bara mjög jákvætt,“ segir Róbert en hann hefur gert fjölda sjónvarpsfrétta af Suðurnesjum og minnist sérstaklega einnar fréttar.

„Þetta var í október 2004. Þá höfðu Víkurfréttir skúbbað feitt og sögðu frá því að herinn væri að fara og rökstuddu það með mjög fínum hætti. Þetta var stórfrétt sem Stöð 2 tók upp um kvöldið. Og meðal annars með svona fréttaflutningi og söguskráningu sést hve héraðsfréttablöðin skipta miklu máli.“

Mynd: Róbert Marshall aðstoðarmaður samgönguráðherra og Páll Ketilsson ritstjóri Víkurfrétta glugga í Víkurfréttir. Nokkrar svona myndir hafa verið teknar í gegnum tíðina þegar frambjóðendur heimsækja Víkurfréttir. Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024