Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

RNB: Karpað um 800 milljóna króna lántöku vegna nýrra byggingarsvæða
Miðvikudagur 4. október 2006 kl. 16:06

RNB: Karpað um 800 milljóna króna lántöku vegna nýrra byggingarsvæða

Miklar umræður urðu á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær vegna fyrirhugaðrar 800 milljóna króna lántöku sem Umhverfis- og skipulagssvið fór fram á vegna nýrra byggingarsvæða. Meirihluti bæjarráðs hafði samþykkt erindið en minnihlutinn setið hjá við afgreiðslu málsins í bæjarráði.

Minnihluti A-lista lagði fram bókun á  bæjarstjórnarfundinum í gær þar sem fram kemur að hann telji að betra hefði verið að fara hægar í fjárfestingar í nýjum hverfum og klára hvert hverfi fyrir sig áður en lagt væri af stað með framkvæmdir í næstu hverfum. Útlit væri því fyrir að Reykjanesbær yrði með fjögur tiltölulega stór hálfkláruð hverfi í byggingu næstu 3-4 árin. A-listinn hafði einnig margvíslegar athugasemdir við það með hvaða hætti ósk um heimild til lántöku var lögð fram. Til að mynda væri ekki gerð ítarleg grein fyrir heildarkostnaði eða heildarfjárfestingu sveitarfélagsins, ekki gerð grein fyrir því hversu mörgum lóðum hafi verið úthlutað til lögaðila né heldur sér gerð grein fyrir því af hversu mörgum lóðum hafi verið greitt staðfestingargjald.

Í máli Böðvars Jónssonar (D), formanns bæjarráðs, kom fram að að þær upplýsingar sem minnihlutinn væri að kalla eftir lægju þegar fyrir í bæjaráði og því hefði verið auðvelt fyrir minnihlutann að kynna sér þær.  Hins vegar væri verið að taka þær saman og vinna ítarlega greinargerð þar að lútandi.

Steinþór Jónsson (D) sagði að ekki væri verið að fara í framkvæmdir við of mörg hverfi í einu, aðeins væri verið bregðast við eftirspurn á markaði sem vildi nægt lóðaframboð, auk þess sem fólk vildi hafa val um það í hvaða hverfi það vildi búa. Eftirspurn verktaka eftir lóðum væri meiri en framboð. Gott jafnvægi væri í lóðaúthlutunum og þær lóðir sem skilað væri inn færu jafnan út aftur. Trú hans væri sú umrædd hverfi fylltust á eðlilegum tíma.

Eftir mikið karp um málið lagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri, til að málinu yrðu frestað uns umrædd gögn og greinargerð lægju fyrir. Var það samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og dró minnihlutinn bókunina til baka.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024