Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

RNB: Fjármagnsliðir tæpir tveir milljarðar umfram áætlanir
Þriðjudagur 11. nóvember 2008 kl. 09:23

RNB: Fjármagnsliðir tæpir tveir milljarðar umfram áætlanir

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ standa frammi fyrir gríðarlegri hækkun fjármagnsliða í rekstrarreikningi sveitarfélagsins. Fyrstu níu mánuði ársins nemur hækkunin tæpum tveimur milljörðum króna umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir.

Áætluð rekstrarniðurstaða Reykjnaesbæjar fyrstu níu mánuði ársins eru 165 milljónir umfram tekjur til viðbótar við þau 200 milljóna króna útgjöld sem bæjarráð hefur þegar samþykkt. Tekjur eru 420 milljónum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir en útgjöld um 800 milljónum hærri. Þetta kom fram í máli Böðvars Jónssonar, formanns bæjarráðs (D) við fyrirspurn Ólafs Thordersen (A) á síðasta bæjarstjórnarfundi.

„Síðan koma fjármagnsliðirnir og þeir eru aðvitað allt, allt aðrir en gert var ráð fyrir og eru í miklum mínus í okkar sveitarfélagi eins og annars staðar. Mér sýnist miðað við stöðuna, eins og hún var í lok september, þá séu fjármagnsliðir sveitarfélagsins tæpir tveimur milljörðum umfram það sem gert var ráð fyrir,“ sagði Böðvar ennfremur í svari sínu.

Böðvar sagði tölur sem þessar væri ekki áætlaðar í fjárhagsáætlunum, þ.e. ekki verðlagsliðirnir sérstaklega.  „Auðvitað er gert ráð fyrir ákveðnum fjármagnstekjum og fjármagnsgjöldum en verðlagsbreytingar eru ekki sérstaklega áætlaðar nema að litlu leyti. Það hafa orðið gríðarlegar breytingar á fjármagnsliðunum á þessu ári, bæði gagnvart íslensku lánunum og þeim erlendu,“ sagði Böðvar sem gat þess jafnframt að þessar tölur væru að taka gríðarlegum breytingum hjá öllum sveitarfélögum landsins sem mörg hver stæðu frammi fyrir miklum hallarekstri á þessu ári og því næsta.

Guðbrandur Einarsson (A) bendi á að hér væri einungis verið að tala um fyrstu níu mánuði ársins. „Sem segir okkur að þetta á eftir að versna. Bankarnir hrundu um mánaðamótin september – október og þá um leið hrundi íslenska krónan.  Þannig að það sem gerðist í október er ekki komið inn í þessa reikninga. Það er auðvitað mál sem við verðum að taka á.  Við getum svo deilt um það hvers vegna við séum að skulda og hvort það hefði átt að vera búið að greiða upp ákveðnar skuldir með sjóðum sem voru til. En við verðum að taka þessu eins og það kemur, það verður ekki umflúið,“ sagði Guðbrandur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024