Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ritstjórnarpistill: Stjórnlagaþing er miklu stærra mál en atvinnuleysið á Suðurnesjum
Fimmtudagur 27. janúar 2011 kl. 08:59

Ritstjórnarpistill: Stjórnlagaþing er miklu stærra mál en atvinnuleysið á Suðurnesjum

Það er hreinlega grátlegt að horfa á ótrúlegar tölulegar staðreyndir varðandi álver í Helguvík á meðan allt er í strand í því máli. Á sama tíma berast fréttir af því að rúmlega helmingur fyrirtækja á Suðurnesjum telji samkvæmt könnun Creditinfo að þau muni lenda í alvarlegum vanskilum eða þroti á næstu tólf mánuðum.

Forstjóri Norðuráls sagði á fundi í Stapa á mánudag að álver í Helguvík, myndi eins og álverið á Grundartanga, eiga veruleg viðskipti við um 300 fyrirtæki þegar allt færi í gang. Norðurál kaupir þjónustu af innlendum aðilum fyrir 10 milljarða á ári. Bara þessi viðskipti við fyrirtækin skapar um eitt þúsund störf.

Aldrei höfum við Suðurnesjamenn heyrt forsætisráðherra standa upp á Alþingi, berja í borðið og segja að svona ástand væri ekki líðandi. Forsætisráðherra sem nú er við völd er meira í mun að bjarga Stjórnlagaþingi sem skapar engin störf í framtíðinni. Og þetta á að heita velferðarstjórn. Um 1600 manns ráfa um göturnar á Suðurnesjum án atvinnu á meðan þúsundir vel launaðra starfa bíða í Helguvík. Norðurál er tilbúð að fara á fulla ferð og öllum undirbúningi er lokið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Ríkisstjórnin segir að ekkert standi upp á hana en forstjóri Norðuráls sagði að annar ríkisstjórnarflokkurinn ynni markvisst gegn verkefninu og að hluti hins flokksins fylgdi með. Fleiri þættir stoppuðu framgang þess og að hægt væri að ganga frá orkusölusamningi HS Orku og Norðuráls, m.a. að Magma málið væri í upplausn, virkjanaleyfi á Reykjanesi óafgreitt þrátt fyrir að hafa verið í vinnslu á annað ár, sífelldar rangfærslur að álverið útiloki önnur verkefni og fleira nefndi forstjórinn á fundinum. Í máli hans kom fram að framkvæmdir árlega í Helguvík myndu skila beint 7 milljörðum í ríkiskassann og að 20 milljarðar af 50 milljarða framkvæmdakostnaði væri innlendur. Nettó áhrif á hið opinbera eru áætluð um 12 milljarðar eða 1 milljarður á mánuði. Um 2 til 3 þús. manns fá atvinnu. Um tvö þúsund störf skapast til framtíðar þegar álver er fullbyggt. Á Suðurnesjum eru flestir af þeim um 1600 atvinnulausum iðnaðarmenn, ófaglært fólk eða ekki með háskólamenntun. Í álverinu munu störf fyrir báða þessa hópa skapast í hundruða vís og fá hærri laun en almennt gerist. Norðurál er með álver á Grundartanga og því er mark takandi á þessum tölum.


Það væri ánægjulegt að sjá forsætisráðherra standa upp á Alþingi, berja í borðið og segja að það sé ekki hægt að horfa á íbúa og fyrirtæki á vonarvöl á Suðurnesjum. Stjórnvöld verða að hætta að draga lappirnar í þessu stóra máli. Það er alvarlegt þegar forstjóri Norðuráls segir að annar ríkisstjórnarflokkur með stuðningi hins standi hreint og beint gegn byggingu álvers. Vonandi hefur hann rangt fyrir sér.


Eftir uppákomuna á Alþingi eftir niðurstöðu Hæstaréttar í Stjórnlagaþingsmálinu verður manni samt spurn: Er Stjórnlagaþing virkilega stærra mál en ófremdarástand á Suðurnesjum?


Páll Ketilsson
ritstjóri Víkurfrétta