Risavaxinn byggingakrani við gagnaverið á Ásbrú
Nú eru Íslenskir Aðalverktakar að reisa risavaxinn byggingakrana á framkvæmdasvæðinu við fyrirhugað gagnaver á Ásbrú í Reykjanesbæ. Talsverðar framkvæmdir eru á svæðinu. Undanfarnar vikur hefur staðið yfir jarðvinna á svæðinu en nú er byrjað að steypa sökkla fyrir byggingar.
Byggingakranar eru jafnan taldir merki um framkvæmdir og óhætt er að segja að á lóð gagnaversins séu menn í framkvæmdahug, því þar rís nú hver byggingakraninn á fætur öðrum. Sá sem nú er verið að reisa er örugglega með þeim stærstu á landinu.
Hann lætur lítið yfir sér úr fjarska byggingakraninn, en þegar framkvæmdin er skoðuð í návígi, eins og á meðfylgjandi myndum, má sjá að mennirnir sem vinna við uppsetningu kranans eru ósköp litlir að sjá.

Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Hann virkar ekki stór maðurinn sem stendur uppi í krananum sem nú er verið að setja upp á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Talsverðar framkvæmdir eru komnar í gang á lóð gagnaversins á Ásbrú.

Gagnaver verður innréttað í þessum húsum. Byggingakraninn er risastór en virkar lítill innan um þessi risastóru hús.



 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				