Risaskip í Keflavík með möl í flugbraut - Bæjarstjóri ýtir við þingmönnum og ráðherra
Stórt flutningaskip með 10 þús. tonn af möl kom til hafnar í Keflavík sl. laugardag. Mölina á að nota í viðhaldsframkvæmdir, sem standa yfir í sumar, við svokallaða norður-suður flugbraut á Keflavíkurflugvelli. Alls munu um 100 þús. tonn af möl fara um hafnir Reykjanesbæjar með þessum hætti í sumar og sumarið 2017.
Lestun malarinnar var svolítið sérstök því henni var dælt á bryggjuna og mokað þaðan á vörubíla. Ekki var hægt að tæma skipið í einni lotu þar sem taka þurfti tillit til þess hversu mikla þyngd bryggjuþekjan gat borið í einu. Því tók uppskipunin lengri tíma en ella, með tilheyrandi kostnaði fyrir alla.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar skrifar um málið á Facebook síðu sinni og segir að ef skipið hefði komist fyrir í Helguvík hefði þetta tekið mun skemmri tíma en þar var ekki pláss vegna annarrar skipaumferðar og takmarkaðs pláss við þennan eina viðlegukant sem þar er.
„Gera má ráð fyrir að það hefði kostað um 50 milljónir að aka þessum 100 þús. tonnum af möl til Keflavíkurflugvallar ef lestunin hefði farið fram í Reykjavík. Þá eru ótalin umhverfisáhrif, slit á Reykjanesbrautinni, slysahætta o.s.frv. Hér er þvi um mikið hagsmunamál allra landsmanna að ræða sem sýnir vel hversu brýnt það er að stækka og fjölga viðleguplássum í Helguvík því þessi staða á eftir að koma oftar upp þegar allt er komið á fullt þar. Til þess þurfum við stuðning og skilning þingmanna og fjárveitingavaldsins.“
Bæjarstjórinn merki fjóra þingmenn og einn ráðherra svæðisins í þessum pistli sínum. Einn þeirra, Ásmundur Friðriksson þingmaður úr Garði svaraði og sagði: „Það hefur ekki og mun ekki standa á mér að leggja því lið að ljúka því verkefni sem tvær ríkisstjórnir hafa lofað að fjármagna innviðauppbyggingu í Helguvík og verkefnið standi við sama borð og sambærileg verkefni eins og Húsavíkurhöfn. En það gengur brösulega.“
Grindvíkingurinn Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar var ekki merktur í pistlinum en sagði: „Þú veist þú hefur skilning og stuðning þingmanna Kjartan, það er annað mál með fjárveitingavaldið.“
Flutingabílar bíða í röðum eftir að fara með möl upp á Keflavíkurflugvöll.
Mölinni var dælt á bryggjuna og þaðan var henni mokað á flutningabílana.
Skipið risti um sex metra þegar það kom í höfnina enda með 10 þús. tonn af möl.