Risaofn hífður frá borði í Helguvík
Sá fyrsti af fjórum. Stórt skref í byggingu kísilverksmiðju.
„Það eru stór tímamót að ofninn sé kominn til landsins. Það er búið að vinna í þessu í tæpt ár frá því skrifað var undir samninga. Við hófum svo framkvæmdir á svæðinu í september. Það er búið að teikna og hanna en menn hafa ekki almennilega séð hvernig afraksturinn verður fyrr en núna þegar búnaðurinn kemur,“ segir Helgi Björn, yfirverkfræðingur hjá United Silicon. Stórt skref var stigið í byggingu kísilverksmiðju þegar félagið tók á móti 32 megavatta ofni á mánudag fyrir fyrsta áfanga verksmiðjunnar. Ofninn, sem er frá Tenova Pyromet, mun framleiða um 21.500 tonn af kísli á ári en framleiðsla mun hefjast á vormánuðum á næsta ári. Kísilverið verður 36 metrar á hæð og mun mest sjást í lofthreinsibúnaðinn, sem verður um 18 metrar.
Ofninn kom í einingum til landsins.
Strax verður hafist handa við að setja ofninn saman á ný, en hann var settur saman á Ítalíu í maí til prufu. Von er á næstu sendingu með meiri framleiðslubúnaði strax í næsta mánuði. Vinnu á lóð félagsins miðar vel að sögn Helga Björns, yfirverkfræðings hjá United Silicon. IAV sér um byggingu ofnhús auk annara bygginga fyrir United Silicon. „Þessi ofn er fyrsti áfanginn í fjögurra ofna verksmiðju. Hönnun lóðar og verksmiðjunnar í heild sinni hefur alltaf miðað við að hér gæti staðið fjögurra ofna verksmiðja þegar kísilmarkaður og raforkuframboð gæfi tilefni til,” segir Helgi Björn. Gildandi starfsleyfi United Silicon miðast við fyrir fjögurra ofna verksmiðju með ársframleiðslu upp á 100.000 tonn.
Gildandi starfsleyfi United Silicon miðast við fyrir fjögurra ofna verksmiðju með ársframleiðslu upp á 100.000 tonn. United Silicon er íslenskt félag í meirihlutaeigu Íslendinga og meðal fjárfesta eru samtals 24 íslenskir, hollenskir og danskir einstaklingar ásamt 8 íslenskum lífeyrissjóðum.