Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Risagróðurhús - rangar forsendur?
Mánudagur 25. nóvember 2013 kl. 08:49

Risagróðurhús - rangar forsendur?

„Hugmyndir um risagróðurhús eru enn og aftur á dagskrá nú í Grindavík. Hollenska fjárfestingafyrirtækið EsBro hyggst reisa 15 ha (150.000 m2) gróðurhús til framleiðslu á tómötum,“ segir á vefsíðu Sambands garðyrkjubænda. Haft sé eftir forráðamönnum verkefnisins að framleiðslan, sem eigi að vera lífræn, verði öll flutt til Englands. Áætlað sé að um 125 starfsmenn vinni við gróðurhúsið en gerður verði samningur við hollenska aðila um sjálfa ræktunina.

Þá kemur fram í greininni að ýmsar vangaveltur séu varðandi þetta mál eins og hvort garðyrkjubændur séu á móti þessari uppbyggingu og hvernig þeir ætli að bregðast við. Því sé til að svara að stjórn Sambands garðyrkjubænda hafi að sjálfsögðu rætt þetta mál án þess þó að álykta sérstaklega um það. Vissulega séu ákveðnar áhyggjur um svo stóra framkvæmd en SG muni ekki gefa út yfirlýsingu gegn framkvæmdinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Helstu áhyggjur garðyrkjubænda séu að niðurstaða útreikninga á hagkvæmni framkvæmdarinnar sé byggð á röngum forsendum. Þær upplýsingar sem haft sé undir höndum séu því miður þannig að það beri að hafa verulegar áhyggjur af þeim þáttum. Það er svo rekið hér:

Röng lýsingaráætlun

Við kynningu á verkefninu kom fram að aflið sem notast á við vegna lýsingar verði um 14 MW. Ef stærð gróðurhússins er 150.000 m2 þá er það einfalt dæmi að reikna út lýsingu á hvern fermetra. Aflinu er deilt í stærðina og þá fæst að lýsingin verði 80-100 w/m2. Á Íslandi er áratuga löng þekking í ræktun tómata undir raflýsingu allt árið um kring. Ræktendur nota til þess 250 w/m2 þ.e. tvöfalt til þrefalt meira en gefið er upp í forsendum EsBro.

Hvað veldur? Líklegast skýringin er sú að ekki hafi verið gerður samanburður á inngeislun á Íslandi og Hollandi. Á undanförnum áratug hafa garðyrkjubændur keypt þjónustu hollenskra ráðgjafa í ræktun í gróðurhúsum. Það bregst ekki að það tekur þá yfirleitt smá tíma, 2-3 heimsóknir, til að átta sig á að inngeislunin hér á landi yfir vetrartímann er töluvert minni en i heimalandi þeirra sem leiðir til þess að gróðurhús hér á landi þurfa meiri lýsingu. Þennan mun má glögglega sjá á meðfylgjandi mynd.

Garðyrkjubændur óttast að ekki séu réttar forsendur fyrir rafmagnsnotkun í útreikningum  EsBro. Ef haldið verður áfram með uppbyggingu án þess að gera ráð fyrir meiri lýsingu þá stefnir í að engin framleiðsla verði en talið er að það þurfi um 150 w/m2 til þess að tómatplöntur bregðist við lýsingunni í mesta skammdeginu.

Það er rétt að minna á að rafmagnskostnaður er 20-30% af rekstrarkostnaði gróðurhúsa.

Vinnuafl eftir þörfum?

Önnur forsenda sem þarf að vera rétt í rekstrarlíkani er kostnaður við vinnuafl sem er í dag um 20-25% af heildarkostnaði og því eins gott að hann sé sem nákvæmastur.

Á margnefndum kynningarfundi kom fram að EsBro eða verktaki þeirra mun notast við hollensku aðferðina við ráðningu vinnuafls. Gott og vel þeir þekkja þá aðferð og notast við hana í Hollandi. En út á hvað gengur hún? Garðyrkjubændur í Hollandi reka starfsmannaleigur og fá til sín starfsfólk þegar á þarf að halda.

Tökum dæmi: Við ræktun tómata þarf að uppskera á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Í stað þess að vera með fastráðið starfsfólk leita garðyrkjustöðvarnar til starfsmannaleigunnar og fá þann fjölda starfsmanna þá daga sem tínt er. Í 10 ha (100 þús m2) geta verið 5 fastir starfsmenn en við uppskeru eða við að setja inn nýjar plöntur eða henda þeim gömlu út eru nýttar þessar leigur. Starfsfólkið er ráðið upp á 0-tryggingu þ.e. engin trygging er fyrir því að þeir fáir vinnu þennan daginn eða hinn og þ.a.l. laun. Vinnumarkaðurinn hér á landi er ekki á þennan hátt..

Flutningar og líftími vörunnar

Eimskip mun sjá um flutninga og samkvæmt kynningu fer varan á Bretlandsmarkað. Eimskip siglir á þriðjudögum sem þýðir að uppskera mánudagsins fer í skip og er komin til Bretlands á sunnudegi og daginn eftir í dreifingu til smásöluverslana og er því orðin viku gömul. Uppskera miðvikudags og föstudags verður því að bíða næsta þriðjudags og er því orðin 10 og 12 daga gömul þegar hún nær neytandanum.

Möguleiki er að semja við Samskip líka en þeir eru á ferðinni á fimmtudegi og eru degi skemur á ferð þannig að varan er því 6 daga gömul þegar hún er komin í hillurnar. Samantekið er líklegt að varan verði 6-10 daga gömul ef við gerum ráð fyrir því að samið verði við tvö skipafélög.

Þekktar eru aðferðir til þess að auka líftíma vöru og eru til þess notaðar ýmsar aðferðir og ein þeirra eru svokallaðar loftskiptar umbúðir. Þá er notast við gas sem hægir á áhrifum súrefnis á vöruna, en það er súrefni sem hefur þau áhrif að hraða gerlamyndun og þ.a.l. styttir líftíma vöru. Aðferðin er vel þekkt og mikið notuð. Ágætt dæmi eru t.d. grænmeti sem flutt er til landsins langar leiðir t.d. frá Kaliforníu er að öllum líkindum í slíkum umbúðum.

Einnig er hægt að tína tómatana grænni en við það minnka bragðgæði vörunnar. Vegna nálægðar við markaði geta íslenskir grænmetisframleiðendur týnt sína vöru þroskaða og því gert henni mögulegt að hafa þroskað þá bragðeiginleika sem sóst er eftir.

Annað

Síðan eru nokkur atriði í kynningu EsBro sem hægt væri að velta fyrir sér en ekki verður gert hér nema þó að minnast á að talað er um lífræna ræktun. Þumalputtareglan er sú að uppskera sé um 50% minni en verðið aðeins 30% hærra en við hefðbundna ræktun. Í kynningunni var ekki hægt að greina að um lífræna ræktun yrði að ræða en aðeins sýnt eins og ef um hefðbundna ræktun verði notuð.

Það eru ákveðin atriði sem skilja að hefðbundna ræktun í ylræktun frá lífrænni. Í fyrsta lagi er að ræktað er í moldarpulsum, Hekluvikri eða steinull í þeirri hefðbundu en lífræna ræktunin krefst þess að rækta sé í mold. Hitt er að notkun á áburði er mismunandi. Tilbúinn áburður er notaður við hefðbundna ræktun á meðan aðeins er notast við lífrænan áburð. Notast er við lífrænar varnir í báðum tilvikum þ.e. notast er við skordýr til að vinna á meindýrum og því ekki notast við nein varnarefni.

Hollendingar hafa langa reynslu á að reisa og reka gróðurhús. Sérhæfð fyrirtæki mæta á staðinn og reisa gróðurhúsin á skömmum tíma. Ekki er ólíklegt að slíkt verði gert hér á landi.

Tvö verkefni – mismunandi niðurstaða?

Að lokum skal velt upp þeirri áleitnu spurningu hvað skilur þetta verkefni frá öðrum sambærilegum? Fyrir tveimur árum var lokið við að taka saman gögn við byggingu 20 ha gróðurhúss sem rísa átti á Hellisheiði. Þar átti líka að rækta tómata. Síðan hefur verið leitað hófana við fjárfesta en ekkert gerst.

Hvað skilur að þessi verkefni? Hvers vegna er annað stopp en hitt virðist á fljúgandi siglingu og fyrstu uppskeru að vænta að ári?

Líklegasta skýringin er að forsendur séu mismunandi. Nú þekkir greinarhöfundur ekkert til undirbúnings Grindavíkur verkefnisins en talsvert til hins. Niðurstaða mín er sú að ekki sé verið að vinna með sambærilegar forsendur sem settar eru inn í reiknilíkan verkefnanna.

Bent hefur verið á hér að ofan að misbrestur virðist vera í mikilvægustu forsendum EsBro og er því líklegt að þar sé komin skýringin á annari niðurstöðu þess verkefnis.

Helsta áhyggjuefni garðyrkjubænda er að farið verður af stað með 6 milljarða fjárfestingu á óbreyttum forsendum og það komi í ljós á fyrstu vikum starfsseminnar að niðurstöður séu aðrar en reiknað var með.

Á þessari mynd sést vel munur á inngeislun á Íslandi og Hollandi.