Risa snekkja frá Rússlandi í Keflavík - kíktu í Skessuhellinn
Ein stærsta og óvanalegasta snekkja í heimi sigldi inn í Keflavíkina í morgun og liggur við festar í Stakksfirði, undir Keflavíkurbjargi. Gestir af snekkjunni komu í litlum bát frá henni inn í smábátahöfnina í Keflavík í morgun og sást til þeirra fara í Skessuhellinn. Meðal gestanna voru tvö börn.
Snekkjan er í eigu rússneska viðskiptajöfursins Andrey Melnitsénkó og er 142 metra löng og möstrin eru um hundrað metrar. Snekkjan vakti fyrst athylgi á Íslandi þegar hún sigldi inn Eyjafjörðinn um miðjan apríl.
Í frétt Fréttablaðsins nýlega kemur fram að engu var til sparað við gerð skútunnar. Hún er í eigu rússneska milljarðamæringsins Andrey Melnichenko og er skráð á Bermúdaeyjum. Hún er talin stærsta seglskúta í einkaeigu sem knúin er jafnframt með mótor. Snekkjan var afhent eiganda sínum árið 2017. Hún var smíðuð af þýsku skipasmíðastöðinni Kobiskrug í Kiel. Ytra borð hennar er hannað af Doelker + Voges, franska artitektinum Jacques Garcia og hinum fræga franska hönnuði Philippe Starck, sem einnig hannaði fleyið að innan.