Rísa norðurljósaturnar í Reykjanesbæ?
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa verið hvött til að taka vel í hugmyndir listamannsins Guðmundar Rúnars Lúðvíkssonar. Hann er með hugmyndir um átta metra háa norðurljósaturna í bæjarlandinu. Málið kom til umfjöllunar á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í vikunni.
Á bæjarstjórnarfundinum hvöttu bæjarfulltrúarnir Friðjón Einarsson og Kristinn Jakobsson til þess að bæjaryfirvöld veittu þessu verkefni Guðmundar Rúnars eftirtekt.
Menningarráð fjallaði um hugmynd Guðmundar Rúnars um norðurljósaturna á síðasta fundi sínum. Umhverfis- og skipulagssvið bæjarins hefur veitt verkefninu sína umsögn en verið er að skoða staðsetningu fyrir norðurljósaturnana.
Menningarráði finnst hugmynd Guðmundar Rúnars Lúðvíkssonar um Norðurljósaturna áhugaverð en leggur áherslu á að ef til þess kemur að þeir verði settir upp í landi Reykjanesbæjar að tekið verði tillit til umhverfis og hæðar verksins.
Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sl. þriðjudag sagði Kristinn Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks, að fyrirhugað verk Guðmundar yrði mikið aðdráttarafl. Guðmundur er að falast eftir landi undir verkið en ætlar sjálfur að standa straum af kostnaði við verkið sjálft, eftir því sem fram kom á fundinum.