Risa humarrán
- Lögreglan er með málið í rannsókn
„Þetta er stórt rán“, segir Guðjón Sigurðsson hjá Humarsölunni í Reykjanesbæ en brotist var inn í gám hjá þeim um síðastliðna helgi. „Þeir voru tveir að verki, miðað við myndavélakerfið okkar og er lögreglan að rannsaka upptökur. Þeir brutust inn í gám sem við erum með í portinu okkar en hann er læstur og þeir sprengdu upp lásinn á honum um sex leytið á laugardagsmorgninum, þeir fara inn í gáminn og loka honum á eftir sér en taka eitthvað með sér,“ bætti Guðjón við.
Þjófarnir sneru aftur og tóku talsvert magn af humri í seinni ferðinni. „Þeir koma aftur aðfararnótt sunnudags kl. 03:45, koma á hvítum jeppling, bakka honum upp að gámnum, opna gáminn og byrja að tína humar af brettinu sem þeir setja inn í bílinn. Þeir voru ekki lengi að þessu, bara nokkrar mínútur,“ segir Guðjón í samtali við Víkurfréttir.
Humarinn sem um ræðir var í 10 kg. kössum, þjófarnir náðu að taka mikið magn og er þetta töluvert fjárhagslegt tjón. „Við erum að vinna í því að meta það hvað tjónið er mikið en það er talsvert. Ég er bjartsýnn á það að þetta upplýsist þar sem að málið er þess eðlis, þetta er það mikið magn af humri og það er ekki auðvelt að koma þessu í umferð,“ segir Guðjón.
Mynd af jepplingnum.