Ríkisstörfum fjölgar á Suðurnesjum
Ríkisstörfum fjölgaði um 9,61% á Suðurnesjum á milli áranna 2016 – 2017 eða um 122,5 stöðugildi. Þetta kemur fram í nýrri könnun Byggðastofnunar á staðsetningu starfa á vegum ríkisins en upplýsingarnar eru settar fram í fjölda stöðugilda. Þá er miðað við hvar störfin eru unnin, en ekki hvar viðkomandi starfsmaður býr. Heklan greinir frá þessu.
Í Reykjanesbæ hefur stöðugildum fjölgað um 121,5 sem er 9,9% aukning á milli ára. Fjölgun er hjá Lögreglustjóra Suðurnesja, Landhelgisgæslunni, Tollstjóra og Isavia, samtals um 148 stöðugildi eða samanlagt 18% fjölgun stöðugilda á milli ára. Hins vegar fækkar stöðugildum hjá Hjúkrunarheimilinu Nesvöllum um 33% eða 32 stöðugildi.
Stöðugildum á landsvísu fjölgaði um 620 eða um 2,62% á milli áranna en Vestfirðir voru eina landssvæðið sem stóð í stað í fjölda stöðugilda, önnur auka við sig.
Í eftirfarandi töflu má sjá í fyrsta lagi hlutfallsskiptingu íbúa niður á landssvæðin um áramótin 2016/2017. Þá má sjá hlutfallsskiptingu stöðugildanna skipt niður á landssvæði. Að lokum má sjá hlutfallsskiptingu stöðugildanna með tilliti til íbúafjölda hvers landssvæðis. Eins og sjá má munar töluvert á milli hlutfalls höfuðborgarsvæðisins í fjölda stöðugilda að teknu tilliti til íbúafjölda, miðað við hlutfall annarra landshluta.