Ríkisstjórnin trúir á öryggi rafmagnsvirkis
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, segir ríkisstjórnina treysta því og trúa að rafmagnsvirki á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli standist allar öryggiskröfur. Hann segir mikilvægt nú, þegar þorsk bresti, að leita allra leiða til að efla atvinnulíf utan höfuðborgarinnar. Ríkisútvarpið greinir frá þessu.
Ríkisstjórnin samþykkti á föstudag bráðabirgðalög sem kveða á um að nota megi bandaríska rafkerfið á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli næstu þrjú árin. Þar á skólastarf að hefjast í haust og stefnt er að því að fólk flytji inn í íbúðir um miðjan ágúst.
Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, gagnrýnir þessa ráðstöfun og segir að stjórnmálamenn spili með öryggi fólks.
Ríkisstjórnin sé með þessu búin að losa Þróunarfélagið undan því að þurfa að axla ábyrgð á því tjóni sem augljóslega verði á heimilistækjum fjölskyldnanna sem þarna ætla að búa. Reynir Þór Ragnarsson rafiðnfræðingur, sem starfað hefur við raflagnir á varnarsvæðinu fyrrverandi í áratugi, sagði í fréttum Útvarpsins að með litlum breytingum yrði rafkerfið á vellinum jafn öruggt og almennt gerist í íslenskum húsum.
www.ruv.is
Loftmynd/Oddgeir