Ríkisstjórnin stendur ekki í vegi á nokkurn hátt
Í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar laugardaginn 27. mars fjallaði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra um atvinnumál á Suðurnesjum og lagði á þau sérstaka áherslu.
„Atvinnuástandið á Suðurnesjum er sérstakt viðfangsefni. Þegar Alþingi hefur afgreitt fjárfestingarsamning vegna Verne Holding mun ekkert standa í vegi fyrir starfrækslu gagnavers á Keflavíkurflugvelli. Stærsta hindrunin í vegi áforma um byggingu álvers í Helguvík um þessar mundir er sú ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur að ráðstafa, a.m.k. tímabundið, orku frá ráðgerðri Hverahlíðarvirkjun til annars verkefnis. Atvinnurekendur eru enn að býsnast yfir Suðvesturlínu sem löngu er búið afgreiða leyfi fyrir. Önnur verkefni sem tengjast Helguvík eru í vinnslu og ættu hvorki að tefja ákvörðanatöku né undirbúning framkvæmda. En atvinnurekendur virðast ekki hafa tekið eftir því að HS Orka er einkafyrirtæki sem er í fjárhagslegri og eignarhaldslegri endurskipulagningu og þarf að gera samninga við sveitarfélög á Reykjanesi um orkuöflun. HS Orka og Orkuveita Reykjavíkur gerðu upphaflega samninga um orkuöflun til 250 þúsund tonna álvers í Helguvík sem hefur öll leyfi til starfsemi. Ríkisstjórnin stendur þar ekki í veginum á nokkurn hátt en fylgist vel með og er reiðubúin að leggja hönd á plóginn ef með þarf.“
Forsætisráðherra greindi einnig frá því að á næstu vikum muni ríkisstjórnin kynna margvíslegar aðgerðir í atvinnumálum sem snúa m.a. að vegagerð og samgöngumálum, atvinnumálum námsmanna, byggingarframkvæmdum á vegum opinberra aðila, viðhaldsframkvæmdum og öðru sem tengist háannatímanum í sumar og fram á haust. Sérstök áhersla verði lögð á uppbyggingu hjúkrunarrýma m.a. í Reykjanesbæ og í alvarlegri athugun er að ráðast í byggingun nýs fangelsis sem lengi hefur staðið til.
Áfram verði haldið með aðgerðir sem farið var í til að bregðast við vanda byggignariðnaðarins t.d. með því að ýta undir viðhaldsframkvæmdir um land allt með afnámi virðisaukaskatts, einnig komi til greina að veita þeim einstaklingum og fyrirtækjum skattafslátt sem leggja í slíkar framkvæmdir. Á vegum stjórnvalda og í samvinnu við sveitarfélögin væri einnig verið að vinna að áætlun um stórfelldar flýtiframkvæmdir í viðhaldsmálum sem verður mjög umfangsmikil og mannaflafrek.