Ríkisstjórnin ber ábyrgðina - forseti ASÍ á opnum fundi í Keflavík í kvöld kl.18
„Ríkisstjórnin verður að taka af skarið núna, tíminn er á þrotum og þolinmæði launafólks er á þrotum,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, nýkjörinn forseti ASÍ en hann verður á opnum fundi í Keflavík í kvöld. „Áfram Ísland fyrir hag heimilinna“ er yfirskrift fundarherferðar ASÍ í samstarfi við aðildarfélög sín um land allt og verður fundurinn í sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja í kvöld kl. 18.
Hvert skal halda? Hver verða skilaboð þín á fundinum?
Með þessari herferð viljum við árétta þá kröfu okkar að staðið verði vörð um hagsmuni heimilanna, launafólks og starfanna. Jafnframt viljum við þétta raðir okkar og efla samstöðuna um þá aðgerðaáætlun sem samþykkt var á ársfundi okkar í október. Þar náðum við samkomulagi um að eina færa leiðin fyrir íslensku þjóðina er að undirbúa umsókn að ESB og upptöku evru. Við viljum ekki bíða lengur eftir að fá að njóta hagræðis af lægra vöruverði og lægri vaxta á lánum okkar
Það vakti athygli um daginn að þú vildir reka tvo ráðherra sem báðir koma úr suðurkjördæmi sem er kjördæmi Reyknesinga. Hvað segir þú um það gamall Keflvíkingurinn?
Málið snýst ekki um það, heldur að ríkisstjórnin finni leiðir til þess að endurheimta það traust sem hún þarf að hafa í augum almennings án þess að rjúfa þing og fara í kosningar. Ég er þeirrar skoðunar að ef það yrði gert við þessar aðstæður myndi hagsmunum okkar yfir 100 þús. félagsmanna kastað fyrir róða - þá fyrst myndi efnahagskerfið hrynja þegar við fengjum að öllum líkindum pólitíska kreppu samhliða. Ríkisstjórnin hefur ýmsar leiðir til þess að endurheimta traust sitt, m.a. gagnvart Seðlabanka og eftirlitsstofnunum, en það er einnig þekkt víða erlendis að farið sé í uppstokkun á ríkisstjórn til að ná þessu fram. Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar, hún verður að axla þetta, en ég óttast að það þurfi eitthvað meira en vel útfærða PR herferð, segir Gylfi.
Fundurinn í kvöld í FS hefst kl.18 og er opinn öllum.