Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 2. janúar 2002 kl. 00:41

Ríkislögreglustjóri vill að lögreglan í Keflavík taki upp þjónustunúmer

Ríkislögreglustjórinn hefur nú lagt fyrir lögreglustjórann í Keflavík að taka upp þjónustusímanúmer fyrir lögregluliðið í hans umdæmi. Þjónustunúmerið er hugsað þannig að fólk gæti komið á framfæri þeim fjölþættu fyrirspurnum og erindum sem það á við lögregluna en fellur ekki undir neyðaraðstoð. Hægt er að ná sambandi í dag við lögreglu um skiptiborð hjá sýslumannsembættinu á skrifstofutíma í síma 420 2400 en utan þess tíma þarf að hringja í Neyðarlínuna 112.Á vefsíðu Ríkislögreglustjórans frá því 6. desember í fyrra segir:
Frá því sameiginlega fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjórans og lögreglustjóranna í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Keflavík, á Keflavíkurflugvelli og á Selfossi hóf störf í júlímánuði 2000 hefur Neyðarlínan samkvæmt samkomulagi við ríkislögreglustjórann svarað öllum símtölum sem berast í útkallssímanúmer lögregluliðanna og í neyðarnúmerið 112. Beiðnum um aðstoð lögreglu beinir Neyðarlínan rafrænt til Fjarskiptamiðstöðvarinnar sem afgreiðir þær til lögregluliðanna á starfsvæðinu.
Lögreglustjórar þessara umdæma ákváðu við breytinguna að taka upp og auglýsa þjónustusímanúmer lögregluliðanna þar sem fólk gæti komið á framfæri þeim fjölþættu fyrirspurnum og erindum sem það á við lögregluna en fellur ekki undir neyðaraðstoð. Nú í haust kom í ljós að lögreglan í Keflavík hafði ekki slíkt númer og var fjallað ýtarlega um í fjölmiðlum. Ríkislögreglustjórinn hefur nú lagt fyrir lögreglustjórann í Keflavík að taka upp þjónustusímanúmer fyrir lögregluliðið í hans umdæmi og er þess að vænta að það verði auglýst næstu daga.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024