Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ríkisendurskoðun: Kadeco mátti selja eignir
Miðvikudagur 26. mars 2008 kl. 16:40

Ríkisendurskoðun: Kadeco mátti selja eignir

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, var í fullum rétti til að selja eignir ríkisins á fyrrum varnarliðssvæði á Keflavíkurflugvelli án aðkomu Ríkiskaupa. Þetta segir í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ennfremur segir þar að fasteignir á svæðinu hafi verið auglýstar með fullnægjandi hætti, þó hugsanlega hefði mátt gera enn betur í þeim efnum, og hagsmuna ríkisins hafi verið gætt við rástöfun eigna á svæðinu.


Hæstu tilboðum hafi jafnað verið tekið og ef svo hafi ekki verið hafi heildarhagsmunir ráðið ferð þar sem önnur ráðstöfun hefði getað lækkað heildarverð seldra fasteigna. Heildarverðmat seldra fasteigna hljóðaði upp á um 21,3 milljarða. Söluverð nemur um 15,3 milljörðum, eða um 71,8% af verðmati.

Hefði átt að bjóða út rafmagnsmál Háskólavalla

Ríkisendurskoðun gerir engu að síður nokkrar athugasemdir, m.a. við það fyrirkomulag að við 14 milljarða sölusamning við Háskólavelli ehf. Þar sé ákvæði þess efnis að Kadeco greiði Háskólavöllum tæpa 2 milljarða króna fyrir að annast nauðsynlegar breytingar á rafmagni fasteignanna. Ríkisendurskoðun telur að vegna umfangs þessa verkefnis og útfærslu á endurgjaldi fyrir það hafi Þróunarfélaginu borið að efna til útboðs um framkvæmd þess.

Náin tengsl milli Keilis og Kadeco óheppileg, Árni ekki vanhæfur

Einnig er það álit Ríkisendurskoðunar að Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, hafi verið vanhæfur þegar félagið seldi eignir til Keilis þar sem hann er stjórnarmaður. Þó sé samnningurinn ekki ógildur þar sem meirihluti stjórnar Kadeco var sam.þykkur sölunni frá upphafi.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, er stjórnarmaður í Kadeco og Keili, en hans aðkoma að samningum var ekki það mikil að um vanhæfi hafi verið að ræða að mati Ríkisendurskoðunar. Þá þótti hann heldur ekki vanhæfur þegar fasteignir voru seldar félaginu BASE þar sem Steinþór Jónsson, samflokksmaður Árna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, er stjórnarformaður.


Víxltengsl þeirra Kjartans og Árna í báðum félögum, Kadeco og Keili, eru óheppilegar að mati Ríkisendurskoðunar og geta vakið upp totryggni.

Einnig var aðkoma þeirra bræðra Þorgils Óttars Mathiesen, stjórnarmanns í Keili og Háskólavöllum, og Árna Mathiesen, fjármálaráðherra, tekin fyrir í úttektinni. Þótti ekkert athugavert við það þar sem ráðherra hefur ekki aðkomu að ákvörðunum Kadeco um að taka eða hafna tilboðum í eignir.

Þykir þess vegna ekki ástæða til að taka til frekari skoðunar tengsl og hæfi ráðherra eða aðstoðarmanns hans, Böðvars Jónssonar, við söluferlið.


Víðtækt umboð framkvæmdastjóra

Loks er það álit Ríkisendurskoðunar að „með hliðsjón af hlutverki Þróunarfélagsins, eðli þeirra heimilda sem það hefur fengið framselt í sínar hendur frá stjórnvöldum og þeim verðmætum sem því hefur verið falið að koma í verð sé eðlilegt að stjórn félagsins takmarki óvenju víðtækt umboð framkvæmdastjóra félagsins [Kjartans Þórs Eiríksssonar] til að skuldbinda það og tryggi þar með að stjórnin komi að öllum meiriháttar ákvörðunum.“


Árni Sigfússon sagði í samtali við Víkurfréttir að hann væri sáttur við niðurstöður skýrslunnar.


„Hún staðfestir í meginefnum að hér hefur verið unnið vel. Við höfum aldrei efast um það og höfum lagt okkur fram um að vinna heiðarleg og góð verk í þágu samfélagsins og erum ánægðir með að það skuli þarna staðfest.“


Árni sagði að í skýrslunni kæmu fram ágætar ábendingar sem að vert væri að hafa í huga í framhaldinu. Aðspurður sagði hann að jafnvel yrði staða framkvæmdastjóra endurskilgreind á næstunni, eins og Ríkisendurskoðun mælist til.


Árni sagðist að lokum engan kala bera til þeirra sem hófu þetta mál. „Það er bara gott að þetta mál sé nú frá og við getum snúið okkur að öðrum málum.“


Loftmynd/Oddgeir Karlsson