Ríkið yfirtekur Sparisjóðinn - stofnfjáreigendur tapa öllu sínu
Endurskipulagning Sparisjóðsins í Keflavík hefur ekki gengið upp og Fjármálaeftirlitið fékk í dag bréf frá stjórn Spkef um yfirtöku sjóðsins en síðasti frestur sem sjóðurinn hafði var á miðnætti. Nokkrir lánadrottnar Sparisjóðsins hafa þegar neitað tilboði ríkisins um 80% niðurfellingu krafna í ljósi þess að ríkið er ekki tilbúið að gefa út yfirlýsingu um algera sameinginu sparisjóðanna. Allir kröfuhafar þurfa að samþykkja tilboðið svo það nái fram að ganga.
Málefni Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs hafa verið í vinnslu að undanförnu og endurskipulagning íslenska sparisjóðakerfisins hefur staðið yfir frá hruni. Dregist hefur að ljúka þeirri vinnu vegna mála sem tengjast Spkef og Byr. Þessir sjóðir áttu að vera kjölfesta í nýju sparisjóðakerfi.
Samkvæmt heimildum Víkurfrétta hafa tólf úttektir og verðmöt verið gerð á eignum Sparisjóðsins í Keflavík á síðustu tveimur árum. Vaxtamunur er neikvæður og reksturinn er ekki að ganga upp. Eiginfjárhlutfall þarf samkvæmt lögum sjóðsins að vera 16% en er neikvætt um 15% . Í þessum könnunum hafa þó engir sviksamlegir gjörningar komið upp en annað er uppi á borðinu hjá Byr þar sem margir stjórnarmenn og stjórnendur tengjast málum sem eru nú til rannsóknar.
Rekstur Sparisjóðsins hefur verið afar erfiður eftir bankahrunið, 17 milljarða tap 2008 og svipuð tala á árinu 2009. Ljóst er að sjóðurinn hefur þurft að afskrifa mikið af útlánum.
Fundað verður með starfsmönnum Sparisjóðsins í Keflavík í fyrramálið og þeim gerð grein fyrir stöðu mála. Þeir eru um 80 talsins. Ekki er vitað hver framtíð þeirra er en líklega heldur rekstur Spkef áfram líkt og gerðist þegar bankarnir hrundu. Fjármálaeftirlitið mun líklega skipa nýja stjórn í sjóðnum.
Innistæðueigendur í Spkef þurfa ekki að hafa áhyggjur þó sjóðurinn sé kominn í þessa stöðu því innistæður eru allar tryggðar af ríkinu. Öðru máli gegnir um stofnfjáreigendur. Þeir tapa öllu þar sem stofnbréf fá ekki sömu „meðferð“ og innistæður fólks.