Ríkið setur sjúkraflutninga á Suðurnesjum í uppnám
Stjórn Brunavarna Suðurnesja lítur svo á að heilbrigðisráðuneytið hafi einhliða sagt upp samningum um sjúkraflutninga á Suðurnesjum. Sjúkraflutningar verða því alfarið á ábyrgð ríkisvaldsins eftir mitt næsta ár, takist ekki nýir samningar milli ríkisins og Brunavarna Suðurnesja.
Stjórn Brunavarna Suðurnesja kom saman til fundar í vikunni til að ræða samning um sjúkraflutninga á Suðurnesjum utan Grindavíkur. Þar gerði Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri, grein fyrir fundi með Sjúkratryggingum Íslands sem haldinn var þann 28. okt sl. Þar kom fram að heilbrigðisráðuneytið mun samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi einhliða lækka greiðslur til Brunavarna Suðurnesja vegna sjúkraflutninga.
„Ljóst er að verulegur munur er á raunkostnaði við sjúkraflutninga og greiðslum frá ríkinu vegna þessarar þjónustu og með einhliða ákvörðun ráðuneytisins mun hlutur sveitarfélaga aukast verulega.
Stjórn B.S. getur ekki litið á einhliða ákvörðun Heilbrigðisráðuneytisins öðruvísi en að um uppsögn á samningi sé að ræða. Stjórn Brunavarna Suðurnesja lítur svo á að hafi ekki tekist samningar um sjúkraflutninga fyrir 1. júlí 2010 séu sjúkraflutningar á svæði B.S. komnir úr höndum Brunavarna Suðurnesja og á ábyrgð Heilbrigðisráðuneytisins. Stjórnin lýsir sig reiðubúna til samninga um sjúkraflutninga á Suðurnesjum,“ segir í bókun stjórnar Brunavarna Suðurnesja.
Þann 12. des. 2008 var undirritaður þjónustusamningur milli Heilbrigðisráðuneytisins og B.S. og gilti samningurinn allt árið 2008. Í bókun með samningnum eru samningsaðilar sammála að þrátt fyrir ákvæði um gildistíma samningsins framlengist hann sjálkrafa eða þar til niðurstaða liggur fyrir um mat á kostnaði kjarasamnings ríkis við Landsamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og samningsaðilar hafa náð samkomulagi um nýjan þjónustusamning. Nýr samningur mun gilda frá 1. janúar 2009 eða frá gildistíma nýs kjarasamnings ríkisins og LSS, taki hann gildi eftir 1. janúar 2009. Hafi samningur um nýjan þjónustusamnings ekki náðst fyrir 30. sept 2009 og er báðum samningsaðilum heimilt að segja samningnum upp með 6 mánaða fyrirvara.
Í samningnum eru ákvæði sem kveða á um hámarksfjölda sjúkraflutninga með 10% frávikum til hækkunar eða lækkunar. Á grundvelli þessa ákvæðis var heilbrigðisráðherra sent bréf þann 24. apríl sl. þar sem óskað var eftir því að ráðuneytið greiddi fyrir umfram sjúkraflutninga samkvæmt samningi. Einnig var óskað eftir viðræðum um endurnýjun á samningi.
Þann 8. maí sl. barst bréf frá ráðuneytinu þar sem fram kemur að vegna efnahagsástands þjóðarinnar hafi framlög til sjúkraflutninga verið skert í fjárlögum 2009 og geti Heilbrigðisráðuneytið ekki orðið við beiðni um viðbótargreiðslu vegna sjúkraflutninga 2008. Jafnframt lýsir ráðuneytið sig reiðubúið til viðræðna við B.S. um framlengingu á ofangreindum samningi.
Miðvikudaginn 28. október sl. voru fulltrúar Brunavarna Suðurnesja boðaðir til fundar við Sjúkratyggingar Íslands en Heilbrigðisráðuneytið hefur falið þeim samningsgerð og utanumhald með sjúkraflutningum. Á fundinum kom fram að Heilbrigðisráðuneytið stefnir að einhliða lækkun á samningnum eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpi ríkisins.
Raunkostnaður Brunavarna Suðurnesja af sjúkraflutningum fyrir síðustu 12 mánuði er tæpar 138 milljónir króna en samningur milli ráðuneytis og B.S. gerir ráð fyrir 70 milljón króna greiðslu til B.S.
Ljóst er að verulegur munur er á raunkostnaði og greiðslum frá Heilbrigðisráðuneytinu vegna þessarar þjónustu og með einhliða ákvörðun ráðuneytisins mun hlutur sveitarfélaga aukast verulega.
Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja sagði, í samtali við Víkurfréttir, stöðuna alvarlega. Það væri ljóst að með einhliða ákvörðun sinni hefði ráðuneytið sagt upp samningi sínum við Brunavarnir Suðurnesja. Boltinn væri núna hjá heilbrigðisyfirvöldum.