Ríkið reynir að eignast HS Orku
Ríkið mun vera að undirbúa tilboð í HS Orku en viðræðuhópur opinberra aðila sem vill kaupa 55% hlut Geysis Green Energy í HS Orku hefur fengið trúnaðargögn um fjárhagslega stöðu fyrirtækisins, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins sem greinir frá þessu.
Í ágúst síðastliðnum var sá möguleiki skoðaður að opinberir aðilar gengu inn í kaup Magma Energy á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Aðkoma Magma og sala Reykjanesbæjar á HS Orku varð uppspretta mikilla deilna sem kunnugt er. Með því að ganga inn í kaupin vildu hinir opinberu aðilar tryggja að orkuvinnslan á Reykjanesi yrði áfram í meirihlutaeign almennings.
Fallið var frá því að ganga inn í kaup Magma en í stað þess var ákveðið að ríkið, sveitarfélög og lífeyrissjóðir reyndu að eignast hlut GGE í HS Orku, sem er 55% eins og áður segir.
Þessir aðilar hafa átt í viðræðum við stjórn GGE, samkvæmt frétt Morgunblaðsins. Því má segja að ríkið sé að semja að einhverju leyti við sjálft sig því fulltrúar tveggja ríkisbanka tóku fjögur stjórnarsæti af fimm á síðasta aðalfundi félagsins.
---
VFmynd/elg