Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ríkið leggur einungis til grunnframlag til símenntunarmiðstöðvar
Þriðjudagur 12. september 2006 kl. 09:04

Ríkið leggur einungis til grunnframlag til símenntunarmiðstöðvar

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Vogum 9. september 2006, skorar á ríkisvaldið að tryggja fjármagn til að standa undir kostnaði af námi á háskólastigi um allt land.

 

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur um langt skeið staðið fyrir fjarnámi á háskólastigi í samvinnu við Háskólann á Akureyri og fleiri án þess að ríkisvaldið komi á sama hátt að fjármögnun þess og dæmi eru um bæði frá Austfjörðum og Vestfjörðum.

 

Sveitarfélög, samtök launþega og atvinnurekenda á Suðurnesjum hafa árlega þurft að greiða umtalsverðan kostnað við húsnæði miðstöðvarinnar ásamt nauðsynlegum búnaði til rekstursins þar sem fjárframlögum ríkisins til símenntunarmiðstöðva er misskipt milli landsvæða.

 

Suðurnes eru eitt fárra landsvæða þar sem ríkið leggur einungis til grunnframlag til símenntunarmiðstöðvar og telur aðalfundurinn brýnt að ríkið viðurkenni nú þegar skyldu sína til greiðslu fyrir þá þjónustu sem Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum veitir á háskólastigi til jafns við það sem gerist annarsstaðar. Þá er mikilvægt að Háskólasetur Suðurnesja í Sandgerði, sem er starfrækt af Háskóla Íslands, verði eflt.


Það hlýtur að vera eðlileg krafa að allir landshlutar sitji við sama borð þegar kemur að fjárframlögum til símenntunarmiðstöðva vegna fjarnáms á háskólastigi.  

Samþykkt með áorðnum breytingum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024