Ríkið komi að uppbyggingu hafnarmannvirkja í Helguvík
Þingmenn Suðurkjördæmis eru flestir á því að ríkið verði að koma að hafnarframkvæmdum í Helguvík til samræmis við það sem gert hefur verið á öðrum stöðum á landinu. Þingmenn og ráðherrar úr Suðurkjördæmi áttu á dögunum fund með hafnarstjórn Reykjaneshafnar þar sem farið var yfir þær framkvæmdir sem þegar hafa átt sér stað og hvað vanti uppá í höfninni svo hún sé í stakk búin að sinna þeim inn- og útflutningi sem verður um höfnina þegar tvö kísilver hafa risið í Helguvík.
Kísilver United Silicon er á lokametrunum og hefur framleiðslu innan fárra vikna. Fyrsti áfangi kísilvers Thorsil er áætlaður eftir 2-3 ár og þá þarf frekari aðstaða að vera tilbúin í höfninni. Lengja þarf viðlegukanta töluvert til að hægt sé að ráða við flutninga um höfnina en umsvif í Helguvík eru að aukast það mikið að gera má ráð fyrir skipum í höfn næstum alla daga ársins.
„Mér líst ekkert á það að í tæplega tveggja kílómetra fjarlægð frá íbúabyggð, leikskóla og grunnskóla rísi tvö heimsins stærstu kísilver og 360 þúsunda tonna álver. En góðu fréttirnar eru þær að ekki eru miklar líkur á því að það gerist. Þó er ljóst að annað kísilverið er að rísa og því er mikilvægt að innviðir hafnarinnar geti þjónustað iðnaðarsvæðið,“ segir Oddný G. Harðardóttir alþingismaður Samfylkingar og nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar í svari við spurningu Víkurfrétta um afstöðu til uppbyggingar sem er að eiga sér stað í Helguvík.
Nánar er fjallað um málið og svör þingmanna í Víkurfréttum í dag.