Ríkið kaupi fasteignir Grindvíkinga
Lausn sem mun hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft, segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður.
„Þessi lausn mun hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft,“ segir Vilhjálmur Árnason, Grindvíkingur og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en hann hefur kynnt fyrir sínum flokki og öðrum þingmönnum leið til að leysa eitt stærsta vandamál hins almenna Grindvíkings.
„Ég hef nú þegar rætt þetta við mitt samflokksfólk, og marga aðra alþingismenn í öðrum flokkum, um að ríkið einfaldlega bjóðist til að kaupa fasteignir allra Grindvíkinga. Líklega yrði miðað við brunabótamat og svo ætti viðkomandi forkaupsrétt á eigninni ef eða þegar hann/hún vill flytja aftur til Grindvíkingar, hvenær sem það verður í boði. Svona mun Grindvíkingurinn losna undan fjárhagsáhyggjum en það gefur auga leið að áfallið er nógu stórt svo fólk þurfi ekki líka að hafa áhyggjur af því að borga leigu og af húsnæðisláninu. Það mikilvægasta hugsanlega líka, Grindvíkingurinn finnur þá aftur núllpunkt og getur hafið nýtt líf á nýjum stað. Óvissan er líklega versti óvinurinn í dag, Grindvíkingurinn á ekki að þurfa hugsa út í hvort verði aftur landris, hvenær ætli gjósi næst og hvar, hvað ætli þetta ástand muni vara í langan tíma o.s.frv. Þessari óvissu verður eytt með þessari aðgerð, sem er eina vitið að mínu mati. Þessi lausn mun hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft og Grindvíkingurinn verður betur í stakk búinn til að taka ákvörðun um að snúa til baka, eða ekki.“
Vilhjálmur segist eiga von á því að þverpólitísk samstaða verði um þessa aðgerð en hvað mun þetta kosta og hvernig á að fjármagna dæmið? „Brunabótamat húseigna í Grindavík er rúmir 80 milljarðar, það er vissulega mikill peningur en það má ekki gleyma að núverandi fyrirkomulag er að kosta ríkið mikla peninga. Ríkið hefur verið með leigustyrk og ýmiss önnur úrræði en með þessu eignast ríkið fasteignir og þarf því ekki lengur að borga aðra kostnaðarliði. Ef ekkert verður gert mun fólki pottþétt fjölga sem verður óvinnufært og fer á örorku, það kostar mikið. Margir svona óbeinir þættir munu vonandi leysast og því mun þetta verða þjóðhagslega hagkvæmt tel ég. Þetta mun taka tíma, allavega mánuð, en það mikilvægasta fyrir Grindvíkinginn er að losna við óvissuna. Ég er sannfærður um að mörgum verður mikið létt þegar ríkisstjórnin tilkynnir að þetta verði gert,“ sagði Vilhjálmur.