Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ríkið hætti að flækjast fyrir okkur í atvinnuuppbyggingu - aðalfundur SSS í dag
Laugardagur 17. október 2009 kl. 11:02

Ríkið hætti að flækjast fyrir okkur í atvinnuuppbyggingu - aðalfundur SSS í dag

„Sú staða sem uppi er í atvinnumálum á Suðurnesjum og það atvinnuleysi sem er víðast hvar á svæðinu er með þeim hætti að ekki verður við unað. Við Suðurnesjamenn krefjumst þess að ríkisstjórn Íslands hætti að flækjast fyrir okkur í þeirri atvinnuuppbyggingu sem við stöndum fyrir. Ríksstjórnin á að leggjast á árarnar með okkur en ekki vinna gegn okkur,“ sagði Garðar Ketill Vilhjálmsson, formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum á aðalfundi samtakanna sem hófst í morgun í sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Garðar flutti skýrslu stjórnar og kom inn á helstu málefni sem hafa komið inn á borð SSS á árinu. Hér er gripið inn í skýrslu Garðars:

„Þroskahjálp á Suðurnesjum og Björgin, geðræktarmiðstöð Suðurnesja, nutu hvor tveggja stuðnings frá sveitarfélögunum í gegnum Sambandið. Ljóst er að framlög til Þroskahjálpar frá ríkinu verða skorin niður um helming frá og með næstu áramótum og því blasir við að óbreyttu að starfsemin þar verði fyrir verulegum skakkaföllum. Það er mál sem við þurfum að skoða alvarlega, því það er með öllu óþolandi að ríkisstjórn sem kennir sig við velferð ráðist til slíkrar atlögu gegn okkar minnstu bræðrum.

Málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja voru venju samkvæmt á borði stjórnarinnar. Vandræðagangurinn við rekstur þeirrar stofnunar ríður ekki við einteiming. Skipuð var nefnd til að útfæra samhæfingu á starfsemi HS og meginstarfsemi Landspítala. Mér er ekki kunnugt um að nokkur skapaður hlutur hafi komið út úr starfi þeirrar nefndar. Enda hafa þrír ráðherrar vermt stól heilbrigðisráðherra síðan nefndin var skipuð og 180° beygja verið tekin í þeirri stefnu sem mörkuð var fyrir HS. Þá er ljóst að allar hugmyndir sem uppi voru um nýtingu á skurðstofum við HS, sem skapað hefðu getað atvinnu hér á svæðinu og tryggt sólarhringsvakt á skurðstofunum – hugnast ekki vinstri grænum heilbrigðisráðherrum.“

Og formaðurinn kom inn á nokkur ágreiningsmál sem hafa komið upp í samstarfi sveitarfélaganna: „Það má með sanni segja að lognmolla hafi ríkt við stjórnarborðið, þó það sama verði ekki sagt um allar undirstofnanir sem reknar eru undir hatti SSS. Þar ber auðvitað hæst misklíð þá sem ríkt hefur innan Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja um framtíðarrekstur Kölku. Ljóst er að finna þarf lausn á þeim málum til framtíðar.
Deilur um eignarhald og sölu hluta í Hitaveitu Suðurnesja, nú HS orku og HS veitum hafa einnig varpað skugga á samstarf sveitarfélaganna. Öruggt er að allir hafa eitthvað til síns mál í þeim efnum, en það breytir því ekki að finna þarf lausn á þeim deilumálum sem þar eru uppi.


Forverar mínir í starfi hafa í þessum ræðustól áður hvatt til þess að samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum verði tekið til endurskoðunar, og hvatt til þess að hugað verði að frekari sameiningu sveitarfélaganna. Í þessu ljósi ákvað stjórnin að samstarf sveitarfélaganna og framtíðarsýn yrði eitt af þeim málum sem rædd verða á þessum aðalfundi,“ sagði Garðar Ketill.

Við upphaf aðalfundar SSS í Fjölbrautaskólanum í morgun, lengst til hægri er Guðjón Guðmundsson á tali við bæjarfulltrúana Þorstein Erlingsson og Björk Guðjónsdóttur en Guðjón hættir nú sem framkvæmdastjóri samtakanna eftir tuttugu ára farsælan starfsferil. Fremst má sjá Eysteinana og bræðrasynina, Eyjólfsson og Jónsson.

Séð yfir stóran hluta fundargesta á aðalfundinum í morgun. VF-myndir/pket.