Ríkið getur hliðrað til í sjómannadeilunni
- segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi
„Það er mín skoðun að ríkið geti hliðrað til, svo samningar náist milli deilenda. Á það hefur til dæmis verið bent að hægt er að beiti ígildi dagpeninga í staðinn fyrir sjómannaafsláttinn sem lagður var af á sínum tíma,“ segir Silja Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.
Silja segir að síðastliðið vor hafi Páll J. Pálsson Grinvíkingur og fyrrverandi þingmaður Framsóknar lagt fram frumvarp þess efnis ásamt nokkrum meðflytjendum. Þáverandi ríkisstjórn var tilbúin að bjóða þá lausn fram í deilunni síðastliðið sumar/haust. Að mínu mati er það ekki heppilegt að ríkið láti eins og deilan komi sér ekki við, þegar grundvallaratvinnugrein landsins á í hlut og mörgum sveitarfélögum, íbúum þeirra og fyrirtækjum, blæðir. Mér finnst því bæði rétt og skylt að ríkið beiti sér, því augljóst virðist vera að deilendur ná ekki niðurstöðu án aðkomu ríkisins.
Að sjálfsögðu er ekki gott að ríkið taki með beinum hætti þátt í að leysa úr kjaraviðræðum á milli tveggja aðila, mikilvægt er að deiluaðilar axli ábyrgð og leysi málið við samingaborðið. En þegar verkfall hefur staðið í átta vikur, hljóta allir að sjá að eitthvað þarf að gera. Og það er hægt án þess að banna verkfallið með lögum. En fyrst og fremst þurfa stjórnvöld að sýna áhuga á því að hjálpa til við að leysa deiluna, en ekki lýsa því einhliða og ítrekað yfir að hún komi þeim ekki við,“ segir Silja við Víkurfréttir.