Ríkið geri upp 90 m.kr. halla
- og tryggi góðar almenningssamgöngur á Suðurnesjum
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum sá um skipulagningu almenningssamgangna á Suðurnesjum frá árinu 2012 samkvæmt samningi við Vegagerðina en halli af verkefninu er rúmar 90 millj. kr. sem er tilkominn vegna einhliða ákvörðunar ríkisvaldsins á uppsögn á einkaleyfi á akstri milli Leifsstöðvar og höfuðborgarsvæðisins. Í ályktun frá aðalfundi Sambands sveitarfélaga er skorað á ríkisvaldið að bregðast við með því að gera upp hallareksturinn og tryggja góðar almenningssamgöngur á Suðurnesjum. Einnig að tryggðar séu öruggar og hagkvæmar almenningssamgöngur milli þéttbýliskjarna á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðisins.
Samningur Vegagerðarinnar og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum rann út um áramótin 2018-2019. Almenningssamgöngur eru mikilvæg þjónusta fyrir íbúa Suðurnesja og er nauðsynlegt að tryggja að áframhald verði á þeirri þjónustu.
Ríkisvaldið hefur lokið við gerð nýrrar stefnu um almenningssamgöngur og er henni ætlað að styrkja almenningssamgöngukerfið á landi, lofti og legi. Fram kemur i fjármálaáætluninni að núverandi samkomulag um rekstur almenningsamgangna hafi verið í gildi frá 2012. Vert sé að benda á að reksturinn hefur ekki staðið undir sér á flestum stöðum og þar sem hann hefur staðið undir sér hefur þjónustustig verið skert verulega. Í áætluninni kemur einnig fram að stefnt sé að því að endursemja við landshlutasamtökin frá og með árinu 2020. Ef það er ætlun ríkisvaldsins að endursemja við landshlutasamtökin þarf að gera upp eldri halla sem og að tryggja fjármuni til þess að reka kerfið sem mætir kröfum notanda og að almenningssamgöngur geti verið raunverulegur valkostur sem samgöngumáti, segir í ályktun SSS.